Engar sólarlandaferðir til Mallorca í sumar

Það eru ófáir hér á landi sem tóku sín fyrstu spor í útlöndum á flugbraut á Mallorca. Í sumar ætlar íslenskar ferðaskrifstofur að einbeita sér að öðrum áfangastöðum.

Bærinn Sollér á norðurströnd Mallorca. Á suður- og austurströnd eyjunnar eru hins vegar sólarstaðirnir sem laðað hafa til sín hópa af Íslendingum hvert sumar um áratugaskeið. Mynd: Dennis Van Den Worm / Unsplash

Sólarlandaferðir til Mallorca voru um áratugaskeið fastur liður á dagskrá íslenskra ferðaskrifstofa. Spænska sólareyjan varð hins vegar útundan á árunum eftir hrun en fyrir fjórum árum síðan hófst leiguflug til Palma flugvallar á ný. Síðustu sumur hafa Íslendingar því komist beint til Mallorca en sá valkostur er ekki í boði að þessu sinni.

„Því miður þá verðum við ekki með Mallorca í ár þar sem það var ekki nægilega góð sala á þann áfangstað í fyrra. Hótelin hafa verið of dýr að okkar mati og gert heildarpakkan óhagstæðan þannig að við ákváðum að taka þennan áfangastað ekki inn í ár,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýnar. Hún útilokar þó ekki að Mallorca verði aftur á boðstólum næsta sumar ef aðstæður breytast en þangað til geti fólk haft samband vilji það aðstoð við að skipuleggja ferðalag til spænsku eyjunnar.

Aðspurður um skortinn á Mallorca ferðum segir Jakob Ómarsson, markaðstjóri VITA, að eftirspurnin hafi færst annað. „Við erum að auka við okkur á Tenerife og Alicante. Svo komu tveir nýir og spennandi áfangastaðir inn í sumar, Almeria og Tyrkland.“ Jakob bætir því við að Mallorca sé einn af uppáhalds sumaráfangastöðum margar starfsmanna VITA og sú staðreynd að í ár verði Mallorcareisur ekki á boðstólum snúist því ekki um gæði eyjunnar sem áfangastaðar.