Engir flugmiðar til Dusseldorf

Eftir sex sumarvertíðir í þýsku borginni hefur WOW air gefið eftir flugið þangað til Icelandair.

Frá Dusseldorf.

Nú er ekki lengur hægt að bóka far með WOW air til Dusseldorf en líkt og Túristi greindi frá um helgina þó voru farmiðarnir félagsins  til þýsku borgarinnar komnir upp í 90 þúsund krónur, aðra leið. Svo hátt verð er vanalega undanfari þess að flugleið er felld niður og það var líka raunin í þessu tilviki.

WOW fór jómfrúarferð sína til Dusseldorf í sumarbyrjun árið 2013 og átti þá í samkeppni við tvö stærstu flugfélög Þýskalands, Airberlin og Lufthansa, á þessari flugleið. Síðar tók Eurowings við keflinu frá Lufthansa en gaf flugleiðina upp á bátinn í fyrra. Þá fór Airberlin líka á hausinn og síðastliðið sumar var WOW air því eitt um ferðirnar milli Íslands og Dusseldorf. Farþegum á flugleiðinni fækkaði þá meira en helming eða úr rúmum 23 þúsundum niður  í 11 þúsund.

Þó WOW hverfi nú frá Dusseldorf þá detta samgöngurnar héðan til borgarinnar ekki niður því þýska borgin er eini nýi áfangastaður Icelandair í sumar. Félagið fer sína fyrstu ferð í maí en upphaflega stóð til að hefja flugið síðastliðið haust. Ekkert varð hins vegar úr því.