Ennþá beðið eftir tilkynningu frá WOW

Ekki er ljóst hvort niðurstaða er fengin í samningaviðræðum Skúla Mogensen og Indigo Partners.

wow skuli airbus
Mynd: WOW air

Á miðnætti rennur út fresturinn sem eigendur skuldabréfa í WOW air veittu Indigo Partners og Skúla Mogensen til að ná saman um fjárfestingu þess fyrrnefnda í íslenska flugfélaginu. Formlegar samningaviðræður þessara aðila hafa núna staðið yfir í þrettán vikur og hafa viðsemjendur verið þögulir um gang mála síðustu daga. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, staðfesti þó við Túrista í gær að tilkynning yrði send út um niðurstöður viðræðnanna en ekki fékkst svar við því hvort það yrði í dag eða á morgun föstudag.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að forsvarsmenn WOW air hefðu náð samkomulagi við leigusala flugfélagsins og í grein blaðsins var þetta sagt síðasta málið sem leiða þurfti til lykta áður en Indigo Partners gæti gengið frá fjárfestingu sinni í WOW air. Í frétt Fréttablaðsins var sérstaklega tekið fram að riftun á leigusamningi á fjórum nýjum breiðþotum við írsku flugvélaleiguna Avolon hafi verið hluti af samkomulaginu. Stjórnendur Avolon vildu þó ekki tjá sig um málið þegar Túristi óskaði eftir því í gær.