Fimm þúsund sölufundir á einum degi

Ferðakaupstefnan Icelandair Mid-Atlantic fór fram í gær.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, ræða við þátttakendur. Mynd: Icelandair

Ferðakaupstefnan Icelandair Mid-Atlantic fór fram í Laugardalshöll í gær og var þetta í 27. skipti sem flugfélagið stendur fyrir ferðakaupstefnunni sem er sú stærsta sem haldin er hér á landi samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu. Þar segir jafnframt að tilgangur ferðakaupstefnunnar sé að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu, bæði innlenda og erlenda.

Alls voru um 700 þátttakendur á Icelandair Mid-Atlantic í ár og koma þeir frá 21 landi. Yfir 100 íslensk fyrirtæki víðs vegar að af landinu kynntu starfsemi sína ásamt aðilum beggja megin Atlantshafsins á áfangastöðum Icelandair. Settir voru upp um 240 sölubásar og í þeim fóru fram yfir fimm þúsund skipulagðir fundir á milli viðskiptaaðila, auk annarra óformlegri funda. Fyrir utan hefðbundin ferðaþjónustufyrirtæki eru opinber ferðamálaráð ýmissa þeirra svæða og borga sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku og Evrópu þátttakendur á kaupráðstefnunni.

„Í tæpa þrjá áratugi hefur Icelandair Mid-Atlantic fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur í tengslamyndum ferðaþjónustuaðila, bæði hér á landi og ekki síður í Evrópu og Norður Ameríku. Margir og ólíkir aðilar nýta Icelandair Mid-Atlantic til að ýmist kynna þjónustu sína og vöru og aðrir til þess að kaupa þjónustu af þeim fyrirtækjum sem hér eru. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum við að byggja Ísland upp sem spennandi áfangastað allt árið um kring. Því er mikilvægt að halda áfram öflugu markaðsstarfi og myndun tengsla beggja megin Atlantshafsins. Þar hefur Icelandair lagt mikið af mörkum í gegnum árin, bæði með því að tengja farþegar yfir hafið sem og viðskiptaaðila,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.