Finnar finna fyrir aukinni ásókn Kínverja í Íslandsflug

Á meðan túristum hér á landi fækkaði almennt í janúar þá fjölgaði kínversku ferðafólki umtalsvert. Forsvarsfólk Finnair finnur fyrir þessari auknu eftirspurn.

Átjándi hver ferðamaður hér á landi í janúar var með kínverskt vegabréf. Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Umsvif Finnair í Kína hafa aukist í takt við aukna ferðagleði Kínverja og í dag fljúga þotur finnska flugfélagsins reglulega til sjö kínverskra borga. Frá flugvellinum í Helsinki geta svo kínversku farþegarnir flogið áfram út um alla Evrópu hafi þeir ekki ætlað sér að stoppa í Finnlandi.

Það er óhætt er að fullyrða að Icelandair hafi notið góðs af Asíuflugi Finnanna og að stór hluti þeirra sem nýta sér áætlunaraferðir Icelandair frá Helsinki séu einmitt asískir ferðamenn sem flogið hafa að heiman með Finnair en hafa sett stefnuna á Ísland. Nú situr Icelandair þó ekki eitt að Íslandsfluginu frá Helsinki því fyrir nærri tveimur árum síðan hóf Finnair að fljúga hingað til lands.

„Ísland hefur vaxið jafnt og þétt á kínverska markaðnum og reyndar hraðar en margir aðrir áfangastaðir,“ segir Simon Barrette, blaðafulltrúi Finnair, í svari til Túrista. En í nýliðnum janúar fjölgaði kínverskum ferðamönnum hér langmest því þá komu hingað um tólf hundruð fleiri Kínverjar en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálasofu. Skýringuna á því má meðal annars finna í fleiri ferðum Finnair hingað til lands því í janúar fjölgaði félagið ferðum sínum til Keflavíkurflugvallar úr þrettán í tuttugu og tvær samkvæmt talningu Túrista.

Gera má ráð fyrir að fjöldi kínverskra ferðalanga hér á landi hafi líka aukist í febrúar enda nær ferðagleði Kínverja hámarki í kringum kínversk áramót en ár svínsins hófst einmitt í síðustu viku.