Fleiri farþegar og fleiri laus sæti

Þrátt fyrir veikari stöðu helsta samkeppnisaðilans þá voru þotur Icelandair verr nýttar í janúar en dæmi eru um síðustu ár. Munurinn hjá WOW gæti verið ennþá meiri.

icelandair radir
Það voru fleiri sem flugu með Icelandair í janúar en hlutfall skipaðra sæta var aðeins lægra. Mynd: Icelandair

Það voru 227 þúsund farþegar sem nýttu sér áætlunarflug Icelandair í janúar sem er aukning um 8 prósent frá sama tíma í fyrra. Hins vegar jókst framboð á flugsætum um tíund á sama tíma. Sætisnýtingin í þotum félagsins lækkaði þar með niður í 71,9 prósent og þarf að leita aftur til janúar árið 2014 til að finna lakari nýtingu þennan fyrsta mánuð ársins eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Þessi lækkun er áhugaverð í ljósi þess að í nóvember og desember síðastliðnum þá mældist sætisnýtingin hjá Icelandair hærri en hún hefur verið á þeim tíma árs. Þar hefur veik staða WOW air væntanlega haft þónokkur áhrif. Framtíð þessa helsta keppinautar Icelandair er ennþá jafn óljós og þess ætti flugfélagið að njóta ennþá. Sætanýtingin hefði því líklega lækkað ennþá meira ef WOW silgdi lygnan sjó.

Það verður hins vegar ekki horft fram hjá því að Icelandair á í samkeppni við fleiri flugfélög en WOW air þegar kemur að fólksflutningum yfir Norður Atlantshafið og þar hefur slagurinn harðnað. Áður var Icelandair til að mynda eina norræna flugfélagið í Boston en er nú í samkeppni þar við Norwegian, SAS og auðvitað WOW. Framboð á Ameríkuflugi frá stærstu borgum Evrópu hefur líka aukist verulega og það hefur neikvæð áhrif nýtinguna og sérstaklega núna þegar færri eru á ferðinni en flesta aðra mánuði ársins.

Skýringin á lægri nýtingu hjá Icelandair í janúar gæti líka legið í hærri fargjöldum. Þegar meðalfargjald flugfélags hækkar þá lækkar nýtingin oft á tíðum líkt og gerðist hjá Norwegian í janúar. Niðursveiflan var hins vegar mun meiri hjá norska flugfélaginu. En þar sem stjórnendur Icelandair veita ekki reglulegar upplýsingar um fargjaldaþróun, öfugt við það kollegar þeirra hjá Norwegian og SAS gera, þá fæst ekki skýr mynd af stöðu mála.

Ferðamannaspá Isavia var fjarri því að standast fyrir janúar og ein af skýringunum sem Isavia gefur fyrir frávikinu er sú að sætanýting í Íslandsflugi lækkaði úr 78 í 74 prósent í janúar. Sú staðreynd og lítilsháttar lækkun í nýtingu Icelandair gefur til kynna að þotur WOW air hafi verið þunnskipaðri en áður. Í janúar í fyrra var nýtingin hjá flugfélaginu 88 prósent en gæti hún hafa farið niður niður í 76 til 80 prósent af því gefnu að þotu erlendu flugfélaganna hafi verið álíka vel nýttar og í fyrra. Úr þessu fæst skorið þegar WOW birtir farþegatölur sínar fyrir janúar en búast má við þeim fyrir helgi.