Flugfélögin þurfa að standa skil mengun

Um miðjan apríl eiga flugfélög að greiða fyrir þá losun gróðurhúsalofttegunda sem starfsemi þeirra sinni innan Evrópska efnahagssvæðisins veldur. Upphæðirnar eru umtalsverðar.

Innan EES svæðisins þurfa flugfélög að greiða ákveðinn mengunarskatt. Mynd: Aman Bhargava

Ísland er þátttakandi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir en markmiðið með því er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Flugrekstur er hluti af kerfinu og árlega fá íslenskir flugrekendur úthlutaðan ákveðin kvóta sem dugar fyrir hluta af losun flugflota þeirra.

Það sem uppá vantar þurfa flugfélögin að kaupa sérstaklega og verðið á þessum viðbótarheimildum ræðst á markaði. Og það hefur hækkað hratt undanfarið. Í byrjun síðasta árs kostaði heimildin til að mynda um 8 evrur á tonn en verðið hafði þrefaldast um síðustu áramót. Núna er það rétt um 20 evrur en í apríl næstkomandi þurfa flugfélögin að eiga heimildir sem standa undir losun flugflota þeirra í fyrra.

Þessar fyrrnefndu verðsveiflur gera það að verkum að stjórnendur flugfélaganna verða því að vega og meta hvernig staðið er að innkaupum á losunarheimildum. Hjá Icelandair eru losunareiningarnar keyptar með jöfnu millibili og losunarheimildir félagsins, fyrir síðasta ár, hafa kostað um 9 milljónir dollara. Það jafngildir tæpum 1,1 milljarði króna miðað við gengi dagsins í dag.

WOW air fær hins vegar úthlutuðum tvöföldum kvóta fram til ársins 2021 þar sem félagið er með nýlegt flugrekstrarleyfi. Þar með dekkar kvótinn hærra hlutfall af heildarlosun félagsins en í tilfelli Icelandair. Hjá WOW air fást ekki upplýsingar um hvernig félagið stendur að innkaupum á viðbótarheimildum en miðað við losun flugflotafélagsins í hittifyrra og aukin umsvif í fyrra þá má gera ráð fyrir að útgjöld félagsins, vegna losunarheimilda, verði á bilinu 350 til 450 milljónir í ár. Upphæði er þó lægri ef félagið hefur keypt allars sínar heimildir í byrjun síðasta árs. Ef félagið þarf hins vegar að kaupa allt magnið á markaði núna þá er upphæðin líklega tæplega hálfur milljarður króna.