Flugu 8 til 9 þúsund þýskum ferðamönnum til Íslands

Gjaldþrot Germania skilur eftir sig skarð sem ólíklega verður fyllt.

Þotur Germania munu ekki fljúga milli Íslands og Þýskalands í sumar. Mynd: Germania

Það fór lítið fyrir þýska flugfélaginu Germania hér á landi þrátt fyrir að félagið hafi haldið úti Íslandsflugi frá þremur til fjórum þýskum borgum frá lokum júní og út september. Sumaráætlun Germania í ár var óbreytt frá því í fyrra og gerði ráð fyrir beinu flugi hingað frá Bremen, Dresden og Nürnberg. Nú er Germania hins vegar gjaldþrota og ekkert verður úr ferðum sumarsins en félagið flaug 95 áætlunarferðir hingað í fyrra samkvæmt talningu Túrista. Ekkert annað flugfélag hefur flogið hingað frá þessum borgum og þar með engar líkur á að skarðið verði fyllt á næstunni.

Í Íslandsflug sitt notaði Germania farþegaþotur af gerðinni Airbus A319 sem taka rúmlega 150 farþega og samkvæmt gögnum sem Túristi hefur aflað frá þýskum flugmálayfirvöldum þá flutti Germania samtals 9.548 farþega til Íslands frá borgunum þremur í fyrra. Árið á undan nam fjöldinn 9.083 farþegum en þá bættust líka við 2.194 farþegar frá Friedrichshafen. Sú borg var ekki hluti af Íslandsflugi Germania síðastliðið sumar. Þess ber að geta að tölurnar hér að ofan segja til um fjölda þeirra sem flugu með Germania til Íslands frá Þýskalandi. Farþegar á bakaleiðinni voru álíka margir.

Gera má ráð fyrir að næstum hver einasti farþegi í Íslandsflugi Germania hafi verið þýskur ferðamaður á leið til Íslands. Flugfélagið var nefnilega lítt þekkt hér á landi og það hefur ítrekað komið fram í máli forsvarsmanna erlendra flugfélaga hér á landi að hlutfall íslenskra farþega er vanalega mjög lágt. Það má því áætla að síðastliðið sumar hafi komið hingað á bilinu 8 til 9 þúsund þýskir ferðamenn með Germania. Það jafngildir 10 til 12 prósent af öllum þeim þýsku ferðamönnum sem heimsóttu Ísland á tímabilinu júní til september.

Sem fyrr segir eru tölurnar hér að ofan um flugumferð fengnar hjá þýskum flugmálayfirvöldum. Isavia veitir engar upplýsingar um fjölda farþega eftir flugleiðum og kærði Túristi þá afstöðu til úrskurðarnefndar upplýsingamála síðastliðið vor. Nefndin hefur ekki tekið málið fyrir.

Næsta sumar verður í boði beint flug milli Íslands og fimm þýskra borga og ferðirnar tíðari en oft áður. Íslendingar komast því til Bremen, Dresden og Nürnberg eftir öðrum leiðum og íbúar þessara borga komast hingað með tengiflugi. Verðlagningin á beina flugi Germania var hins vegar oft mjög hagstæð en það kann líka að vera ein af meginskýringum örlaga fyrirtækisins.

Farþegar hér á landi sem áttu miða með Germania í sumar ættu að snúa sér til kreditkortafyrirtækisins síns og biðja um endurgreiðslu.