Framkvæmdastjórn Icelandair stokkuð upp á ný

Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi Icelandair Group þar sem aukin áherslan er lögð á flugrekstur en áður.

Mynd: Icelandair

Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi Icelandair Group til að ná fram enn skýrari áherslu á flugrekstur sem skilgreindur er sem kjarnastarfsemi félagsins. Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem gerðar eru umfangsmiklar breytingar á framkvæmdastjórn flugfélagsins.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að starfsemin muni nú skiptast í átta svið sem samanstanda af fjórum kjarnasviðum og fjórum stoðsviðum. „Kjarnasviðin verða sölu- og þjónustusvið, flugrekstrarsvið, flugflutningasvið og flugvélaleiga og ráðgjöf. Starfsemi þriggja fyrstu sviðanna snýst að mestu um að hámarka afkomu af alþjóðlegu leiðarkerfi Icelandair en flugvélaleiga og ráðgjöf, starfsemi Loftleiða Icelandic, nýtir þekkingu, reynslu og rekstrarþætti félagsins á arðbæran hátt með því að vinna með flugfélögum víðs vegar í heiminum. Þá munu fjögur stoðsvið vinna þvert á fyrirtækið: fjármálasvið, mannauðssvið, stafræn þróun og upplýsingatækni, sem og flugfloti og leiðarkerfi. Framkvæmdastjórar þessara sviða mynda framkvæmdastjórn Icelandair Group ásamt Boga Nils Bogasyni, forstjóra félagsins,“ segir í tilkynningu.

Með þessari breytingu verða gerðar breytingar á skipun framkvæmdastjórnar fyrirtæksins. Sölu- og markaðssvið og svið þjónustuupplifunar sem rekin hafa verið sem tvö aðskilin svið verða sameinuð í eitt. Birna Ósk Einarsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þjónustuupplifunar, mun leiða sameinað sölu- og þjónustusvið félagsins. Gunnar Már Sigurfinnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, situr áfram í framkvæmdastjórn félagsins sem framkvæmdastjóri flutningasviðs.

Tómas Ingason kemur nýr inn í framkvæmdastjórn félagsins og fer fyrir nýju sviði, stafrænni þróun og upplýsingatækni og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir sem kemur einnig ný inn í framkvæmdastjórn, eins og fram hefur komið, hefur störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs um miðjan febrúar.

Jafnframt taka Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri flotamála og leiðarkerfis félagsins, og Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, sæti í framkvæmdastjórn.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sem er nú í söluferli, mun við þessa breytingu víkja úr framkvæmdastjórn félagsins. Þá mun Jens Bjarnason framkvæmdastjóri nú einbeita sér að erlendu fjárfestingarverkefni en hann hefur undanfarin tvö ár leitt slíkt verkefni Icelandair Group á Grænhöfðaeyjum.

„Með þessum breytingum verður áherslan á kjarnastarfsemi félagsins, flugrekstur, enn skýrari. Við náum fram einföldun og hagkvæmni í rekstri, meðal annars á fjármálasviði og gerum félagið betur í stakk búið til að takast á við breytingar í rekstrarumhverfinu og nýta tækifæri til áframhaldandi vaxtar. Aukin áhersla á stafræna þróun, þróun flotans og leiðarkerfisins, sem og flutninga- og leiguflugstarfsemi okkar, mun styrkja samkeppnishæfni félagsins til framtíðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.