Franke tjáir sig ekki um WOW

Viðtalið sem birtist við viðsemjanda Skúla Mogensen í gær byggði á gömlum tilvitnunum.

Mynd: London Stansted

Eigendur skuldabréfa í WOW air veittu vilyrði fyrir breyttum skilmálum bréfanna um miðjan janúar og var samþykki þeirra sagt forsenda fyrir fjárfestingu Indigo Partners í íslenska flugfélaginu. Nú eru þrjár vikur liðnar frá skilmálabreytingunni en á þeim tíma hefur lítið heyrst af viðræðunum milli Indigo Partners og Skúla Mogensen, eiganda og forstjóra WOW air. Og ennþá hefur ekki fengist svar við því hvort WOW hafi losnað undan 12 ára leigusamningi á fjórum breiðþotum.

Það leit hins vegar út fyrir að William Franke, stjórnandi og aðaleigandi Indigo Partners, hefði rofið þögnina í gær. Þá birtist grein á vef bandarísku fréttastofunnar CNBC þar sem haft var eftir Franke að hann sæi tækifæri í WOW því annars myndi hann ekki fjárfesta í félaginu. Stuttu eftir að greinin kom út þá birtust endursagnir á henni í fjórum íslenskum vefmiðlum.

Í grein CNBC segir Franke jafnframt að stefnt sé að því að klára kaupin á WOW fyrir lok þessa ársfjórðungs. Þessi fullyrðing vekur athygli enda hefur Indigo Partners aðeins frest til næstu mánaðamóta til að ganga frá fjárfestingu í WOW. Annars ógildist fyrrnefnt samþykki skuldabréfaeigenda. Og blaðafulltrúi Indigo Partners staðfestir, í svari til Túrista, að tilvitnanir í Franke, í grein CNBC í gær, séu allar frá því í fyrra. Bæði það sem haft er eftir honum um WOW en líka um stöðu lággjaldaflugfélaga almennt. Franke ætlar ekki að tjá sig um stöðu mála í dag, hvorki við Túrista, CNBC né annan fjölmiðil.