Fullyrða að nú sé verið að leggja lokahönd á fjárfestingu Indigo í WOW air

Samkomulag hefur náðst milli WOW air og leigusala flugfélagsins segir Fréttablaðið. Gera má ráð fyrir að kostnaður við slíkt sé verulegur.

TF-BIG er máluð og merkt WOW en nú hefur WOW keypt sig frá leigusamningi á vélinni og þremur öðrum breiðþotum. Mynd: Airbus

Snemma árs 2017 gekk WOW air frá tólf ára leigusamningi á fjórum nýjum Airbus A330-900neo breiðþotum. Þessar 365 sæta flugvélar átti að nota í áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli til Austurlanda og hafa tvær þessara þota, TF-BIG og TF-MOG(ensen), staðið við verksmiðjur Airbus í Toulouse í Frakklandi síðustu mánuði. Gera má ráð fyrir að skuldbinding WOW air vegna leigusamningins hafi numið að lágmarki 20 milljörðum króna líkt og Túristi greindi frá fyrir mánuði síðan.

Þá fengust engin svör frá WOW air né flugvélaleigunni Avolon um hvort íslenska lággjaldaflugfélagið væri ennþá skuldbundið til að leigja þoturnar eða ekki. Það liggur nefnilega fyrir að WOW air ætlar ekki lengur að nýta breiðþotur í ferðir sínar enda hefur félagið lagt af áætlunarflug til Indlands og Kaliforníu. Fréttablaðið greinir hins vegar frá því dag að WOW air og Avolon hafi náð samkomulagi um riftun leigusamningsins. Gera má ráð fyrir að kosnaðurinn vegna þessa samkomulags hlaupi á hundruðum milljóna fyrir hverja vél samkvæmt heimildum Túrista.

Fréttablaðið fullyrðir jafnframt í frétt sinni í dag að þetta samkomulag hafi verið síðasta skilyrðið fyrir fjárfestingu Indigo Partners í WOW air. Það hefur hingað til ekki fengist staðfesta hjá WOW að þessi fyrrnefndi leigusamningur væri mögulegur ásteytingarsteinn þó hafa verið  nokkuð augljóst enda verulega skuldbinding.

Á morgun rennur út fresturinn sem Indigo Partners og WOW air fengu frá eigendum skuldabréfa til að ganga frá samkomulagi um fjárfestingu þess fyrrrnefnda í flugfélaginu.