Gjaldþrot Germania dregur úr úrvalinu á Keflavíkurflugvelli

Þýska flugfélagið Germania var lýst gjaldþrota í gærkvöld og þar með er ljóst að valkostir þeirra sem ætla að fljúga milli Íslands og Þýskalands verða færri.

germania m
Þotur Germania munu ekki fljúga hingað til lands í sumar. Mynd: Germania

Á meðan Icelandair, Lufthansa og WOW hafa fókusað á flug hingað frá helstu flugvöllum Þýskalands þá hefur flugfélagið Germania boðið upp á ferðir hingað frá þeim minni. Sumaráætlun flugfélagsins í ár gerði ráð fyrir vikulegum brottförum til Íslands frá Nürnberg, Dresden og Bremen. Í gærkvöld var þetta þýska flugfélag hins vegar lýst gjaldþrota.

Rekstur Germania hefur lengi verið erfiður og var félagið til að mynda eitt af þeim þremur evrópsku flugfélagum sem forstjóri Ryanair sagði nýverið að væru í mestum vanda. WOW air komst líka á þennan lista írska forstjórans.

Með brottfalli Germania þá stefnir í að Íslandsflug frá Þýskalandi í sumar takmarkist við borgirnar Hamborg, Berlín, Dusseldorf, Munchen og Frankfurt.

Þeir sem áttu farmiða með Germania í sumar ættu að hafa samband við kreditkortafyrirtækið sitt hið fyrsta og fara fram á endurgreiðslu.