Hefja sölu á skíðaferðum til Sviss

Íslenskt skíðafólk verður líklega fjölmennara í brekkunum við Andermatt á næstunni.

Frá Andermatt. Mynd: GB ferðir

Á þessum tíma árs eru ófáir Íslendingar staddir í hlíðum Alpanna enda löng hefð hér á landi fyrir skíðaferðum til Austurríkis eða Ítalíu. Þeir sem kosið hafa brekkurnar í svissneska hluta fjallgarðsins hafa hins vegar farið þangað á eigin vegum því ekkert hefur verið um reglulegar skíðaferðir til Sviss.

Það skrifast til að mynda á lítið eða ekkert framboð á vetrarflugi til Sviss sem gert hefur ferðalagið þangað erfiðara og dýrara. Nú flýgur Icelandair hins vegar allt árið um kring til Zurich og eins fljúga þotur easyJet héðan í lok vetrar til bæði Basel og Genfar.

Og nú ætla GB-ferðir að nýta sér hið beina flug til Zurich og bjóða upp á skíðaferðir til fjallabæjarins Andermatt. Þangað tekur um 90 mínútur að keyra frá flugvellinum í Zurich.

„Ástæðan fyrir því að við bætum þessu skíðasvæði við flóruna okkar er fyrst og fremst sú að þettta er frábært skíðasvæði og mjög snjóörrugt. Bærinn liggur í tæplega 1500 metra hæð og hæstu tindarnir á skíðasvæðinu eru í um 3000 metra hæð. Svæðið er gríðarlega fjölbreytt með brekkur fyrir byrjendur og meðalgott skíðafólk en einnig með „off piste“ svæði fyrir þá sem vilja meira krefjandi aðstæður,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson, hjá GB-ferðum, um Andermatt.

Það eru ekki aðeins þeir sem vilja renna  sér niður á við sem geta notið útiveru við Andermatt því þar er einnig að finna 28 kílómetra spor fyrir skíðagöngufólk. En þess háttar göngubrautir er ekki algengar við stærstu skíðasvæðin í Ölpunum.

Skíðaferðirnar til Sviss með GB-ferðum kosta frá 119 þúsund krónum á mann og fyrstu brottfarirnar eru á dagskrá í mars og svo verður þráðurinn tekinn upp á ný í lok ársins.