Heimsferðir fækka sólarlandaferðum

Framboð á sumarferðum með Heimsferðum verður minna en upphaflega var lagt upp með. Skipt hefur verið um flugfélag af þessum sökum.

trieste castello Miramare photo marco milani
Castello Miramare er skammt frá Trieste. Þangað hafa Heimsferðir flogið síðustu sumur en aða þessu sinni leggjast þær af frá og með lokum júnímánaðar. Mynd: Ferðamálaráð Ítalíu

„Við erum að draga úr framboði yfir sumarmánuðina,“ segir Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, aðspurður um þær breytingar sem gerðar hafa verið á flugáætlun ferðaskrifstofunnar í sumar. Tékkneska flugfélagið Travelservice er nefnilega ekki lengur skráð fyrir meginþorra sumarferða Heimsferða heldur hið ítalska Neos.

Skýringin á þessum breytingum er sú, að sögn Tómasar, að það hentaði ekki Travelservice að fækka flugum yfir sumarið. Upphaflega stóð til að Boeing MAX þota tékkneska flugfélagsins yrði staðsett hér á landi í sumar og fljúga alla morgna til áfangastaða Heimsferða. Úr því verður ekki en Tómas segir að Travelservice muni engu að síður sjá um að fljúga farþegum ferðaskrifstofunnar út í heim fram á vorið og aftur í haust.

Sem fyrr segir er nú verið að draga úr hjá Heimsferðum og lenda brottfarirnar til ítölsku borgarinnar Trieste undir niðurskurðarhnífnum frá og með byrjun júlímánaðar. Þar með verða pakkaferðir til Slóveníu og Króatíu aðeins á boðstólum fram til þess tíma. Tómas segir að nú sé unnið að því að hafa samband við farþega sem áttu bókað far vegna þessara breytinga.

Af heimsíðu Heimsferða að dæma þá eru ferðir til Tyrklands og Krítar ennþá á hluti af sumarprógrammi Heimsferða og nú eru komnar inn brottfarir til Mílanó á fimmtudögum og heimflug á mánudegi. Ástæða fyrir viðbótinni er sú að hið ítalska Neos mun fljúga með farþega Heimsferða á virkum dögum en nýta þotuna í flug með Ítali frá Mílanó um helgar.

Heimsferðir hafa verið umsvifamesta ferðaskrifstofa landsins þegar kemur að sölu pakkaferða til Íslendinga. Móðurfélag þess, Primera Travel Group, sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar, hefur þó verið í miklu vanda í kjölfar gjaldþrots Primera Air. Það flugfélag hafði um árabil séð um flug fyrir systurfélag sitt Heimsferðir. Í dag kaupir ferðaskrifstofan hins vegar flugsæti hjá Adria Airways, Icelandair, Travelservice og Neos.