Hótelverðið í Reykjavík lækkaði um fimmtung

Veiking krónunnar skýrir að hluta til af hverju verðskrár hótela í höfuðborginni hafa lækkað svona mikið milli ára.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Nótt á hefðbundnu tveggja manna hótelberbergi í Reykjavík kostar 18.400 krónur nú í febrúar eða 136 evrur. Í evrum talið er þetta  21 prósent lægra verð en á sama tíma í fyrra og hefur verðið ekki lækkað eins mikið í nokkurri annarri Evrópuborg samkvæmt samantekt bókunarsíðunnar Trivago .

Sú síða nýtur töluverða vinsælda hjá ferðafólki í Evrópu og Bandaríkjunum og er ágætis mælikvarði á stöðuna. Bókanir ferðaskrifstofa eru ekki hluti af úttektinni. Stór hluti af þessari 21 prósent lækkun á reykvísku hótelunum skrifast á þá staðreynd að gengi krónunnar gagnvart evru hefur lækkað um tíund síðastliðnu tólf mánuði.

Í evrum talið hafa hótelstjórar í París, Barcelona, Berlín og London lækkað sínar verðskrár í febrúar. Sú lækkun vegur þá upp á móti veikari krónu sem er jákvætt fyrir Íslendinga á faraldsfæti.