Iceland Travel til sölu

Stjórn Icelandair Group hefur tekið ákvörðun um að undirbúa sölu á Iceland Travel sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Mynd: Alex Lopez / Unsplash

Ferðaskrifstofan Iceland Travel er líklega umsvifamesta ferðaskrifstofa landsins þegar kemur að skipulagningu Íslandsferða. Fyrirtækið hefur lengi tilheyrt Icelandair Group en svo verður ekki lengur því stjórn þess hefur ákveðið að bjóða það til sölu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í morgun.

Iceland Travel starfar á flestum sviðum íslenskrar ferðaþjónustu og tekur á móti vel yfir hundrað þúsund gestum á ári hverju. Bæði ferðafólki í hópferðum en líka einstaklingum. Að auki sér Iceland Travel um þjónustu við fjölda skemmtiferðaskipa og farþega þeirra á hverju sumri. Iceland Travel starfar á sviði fágætisferðaþjónustu, m.a. undir merkjum Nine Worlds og ennfremur starfrækir Iceland Travel einn fjölsóttasta ferðaþjónustuvef landsins á slóðinni www.icelandtravel.is samkvæmt því sem fram kom í tilkynningu frá ferðaskrifstofunni nýverið.

Iceland Travel er annað fyrirtækið á skömmum tíma sem selt verður út úr Icelandair Group því nú stendur yfir lokahnykkur á sölu Icelandair hótelanna.