Icelandair niður í 14. sæti í Kaupmannahöfn

Umsvif Icelandair drógust saman á fjölfarnasta flugvelli Norðurlanda í fyrra.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: Jasper Carlberg / CPH

Rúmlega 12 þúsund færri farþegar nýttu sér áætlunarferðir Icelandair milli Keflavíkurflugvallar og Kastrup í fyrra í samanburði við árið 2017. Þá flutti Icelandair 356.438 farþega til og frá flugvellinum í Kaupmannahöfn en fjöldinn fór niður í 344.022 í fyrra. Þar með fellur Icelandair úr þrettánda í fjórtánda sæti á listanum yfir 20 umsvifamestu flugfélögin á Kaupmannahafnarflugvelli. Félagið hefur hins vegar boðað tíðari ferðir til Kaupmannahafnar í sumar.

Ekki fást tölur um farþegafjölda WOW air þar sem Kaupmannahafnarflugvöllur veitir aðeins þessar upplýsingar um 20 stærstu flugfélögin. Frá Keflavíkurflugvelli fást hins vegar engar tölur um umsvif flugfélaga og kærði Túristi þá afstöðu Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála síðastliðið vor. Málið hefur ennþá ekki verið tekið fyrir af nefndinni.

Tíu af þeim tuttugu flugfélögum sem eru stærst í Kaupmannahöfn stunda ekki Íslandsflug, þar á meðal Ryanair, KLM og Air France. Á listanum er Primera Air en þetta flugfélag Andra Más Ingólfssonar varð gjaldþrota síðastliðið haust.