Icelandair ólíklega til Indlands

Beint flug milli Íslands og Indlands er ekki lengur í brennidepli hjá stjórnendum íslensku flugfélaganna.

Frá Nýju Delí MYND: JIRI MOONEN / UNSPLASH

Það kom fram í máli Björgólfs Jóhannssonar, þáverandi forstjóra Icelandair, síðastliðið vor að horft væri til áfangastaða í Indlandi og félagið gæti hafið flug þangað haustið 2019. Eins og staðan er í dag er hins vegar ólíklegt að eitthvað verði úr Indlandsflugi hjá Icelandair í ár. Þetta sagði Bogi Nils Bogason, forstjóra Icelandair, á fundi með blaðamönnum á Mid-Atlantic ferðakaupstefnunni í gær.

Áhugi íslensku flugfélaganna tveggja á ferðum til Indlands hefur því dvínað verulega upp á það síðasta. WOW air kynnti áætlunarflug sitt til Nýju Delí stuttu eftir að Björgólfur opinberaði vilja Icelandair á Indlandsflugi. Í desember fór WOW air svo jómfrúarferð sína til Indlands en lagði flugleiðina niður aðeins sex vikum síðar.

Nú eru plön WOW um áætlunarflug til Asíu komin á ís og eins og fyrr segir þá er ekki útlit fyrir að þotur Icelandair setji stefnuna á heimsálfuna á næstu misserum.