Meiri fækkun farþega í lok janúar skýrir skekkju í ferðamannaspá

Samdrátturinn í komum ferðamanna var töluvert meiri í janúar en spá Isavia gerði ráð fyrir. Jafnvel þó hún hafi verið birt í lok mánaðar.

Mynd: Isavia

Það voru aðeins þrír dagar til mánaðamóta þegar Isavia kynnti farþega- og ferðamannaspá sína fyrir árið. Gerði hún ráð fyrir 0,3 prósenta samdrætti í brottförum erlendra ferðamanna. Raunin var hins vegar 5,8 prósent eins og áður hefur komið fram og var þessi mikli munir meðal annars til umræðu á þingi í gær.

Isavia hefur nú birt skýringu á heimasíðu sinni á þessari skekkju og þar segir að spá fyrirtækisins byggi á bestu fáanlegum tölum frá flugrekstraraðilum. Í tilkynningunni segir jafnframt að helstu ástæður þess að nokkru munaði í janúar er að farþegaspá þessa árs var fullkláruð á grundvelli fenginna gagna um miðjan janúar. „Þær tölur sem þá lágu fyrir bentu til að niðurstaðan fyrir mánuðinn yrði sú sem lögð var fram í spánni. Raunin varð öllu lakari síðustu 10 daga mánaðarins, m.a. hvað varðar sætanýtingu heilt yfir.“ Er þar vísað til þess að sætanýtingin í flugi til og frá landinu var 74 prósent í janúar sem er fjögurra prósentustiga lækkun frá því í fyrra. Sætisframboð drógst saman um 1,9 prósent og heildarfjöldi farþega lækkaði um 6% milli ára, eða um 2,4 prósentustig frá því sem var spáð. Því má jafnframt bæta við að WOW air hætti að fljúga breiðþotum frá Los Angeles og Delí þann 20. janúar og þá lagðist líka af flug félagsins til Chicago.

Í tilkynningu Isavia segir jafnframt að nú í byrjun febrúar sé von á fyrstu ferð flugfélagsins Jet2.com til Keflavíkurflugvallar. Félagið mun fljúga með farþega frá Bretlandseyjum, nánar tiltekið frá Glasgow, Newcastle, Leeds Bradford, Manchester og Birmingham. Samtals verður flogið hingað til lands tólf sinnum í vetur frá 7. febrúar til 21. mars.