Nærri 35 þúsund færri flugu innan­lands

Farþegum í innanlandsflugi fækkaði töluvert á stærstu flugvöllum landsins í fyrra. Á sama tíma berast neikvæðar fréttir af rekstri Air Iceland Connect og Flugfélagsins Ernis.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Rúmlega 737 þúsund farþegar flugu milli íslenskra flug­valla í fyrra sem er samdráttur upp á nærri fimm af hundraði miðað við árið 2017. Nýliðið ár er það fjórða lakasta, síðast­liðinn áratug, þegar kemur að fjölda farþega í innan­lands­flugi samkvæmt nýrri saman­tekt Isavia. Á sama tíma er rekstur umsvifa­mestu fyrir­tækj­anna í innan­land­fluginu þungur.

Forsvars­menn Icelandair Group hafa þannig boðað endur­skoðun á rekstri Air Iceland Connect og nýverið greip Isavia til þess ráðs að kyrr­setja stærstu flugvél Flug­fé­lagsins Ernis vegna 98 milljón krónar skuldar á notenda­gjöldum á flug­völlum landsins. Þessi neikvæðu tíðindi af afkomu flug­fé­lag­anna tveggja eru viss vísbending um að hið margum­rædda háa farmiða­verð í innan­lands­flugi standi ekki undir rekstri flug­fé­lag­anna tveggja.

Líkt og áður hefur verið bent á þá er það sérís­lenskt fyrir­komulag að bjóða farþegum í alþjóða­flugi ekki upp teng­ingu við innan­lands­flug til og frá helstu flug­höfn landsins. Það kann að skýra ástæður þess að farþegum í innan­lands­fluginu fækkar þó erlendu ferða­fólki hér á landi hafi fjölgað umtals­vert síðustu ár. Síðast­liðin tvö ár fjölgaði túrist­unum um rúmlega hálfa milljón en þrátt fyrir það nýttu færri farþegar sér innan­lands­flugið í fyrra en árið 2016 eins og sjá má hér fyrir neðan.