ProCar vísað úr Samtökum ferðaþjónustunnar

Stjórnendur bílaleigunnar Procar eiga ekki lengur heima SAF að mati stjórnar samtakanna.

island vegur ferdinand stohr
Mynd: Ferdinand Stohr / Unsplash

Í fréttaskýringarþættinum Kveik sem sjónvarpað var á RÚV í gærkvöld kom fram að bílaleigan ProCar ehf. hafi átt við kílómetrastöðu á bílaleigubílum áður en þeir voru seldir á almennum markaði. Forsvarsmenn umræddrar bílaleigu hafa þegar gengist við brotunum í yfirlýsingu. ProCar er aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar en í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér í kvöld kemur fram að stjórn SAF hafi ákveðið einróma að vísa fyrirtækinu úr samtökunum.

„Samtök ferðaþjónustunnar fordæma umrædd brot og árétta að auk þess að blekkja og brjóta alvarlega á rétti einstaklinga og lögaðila sem í góðri trú hafa keypt notaða bíla af viðkomandi bílaleigu, skekkir slík brotastarfsemi samkeppnisstöðu bílaleiga í landinu. SAF árétta að innan raða samtakanna starfar fjöldi bílaleiga sem stunda ábyrgan og heiðarlegan atvinnurekstur. Ólíðandi er að brot eins fyrirtækis varpi óréttmætum skugga á allar bílaleigur í landinu. Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir fagmennsku og gæði og líða ekki brot sem þessi. “ segir í tilkynningunni.

Ennfremur leggja SAF og fulltrúar bílaleiga innan samtakanna mikla áherslu á að stjórnvöld og eftirlitsaðilar hlutist til um að gerð verði eftirlitsúttekt hjá öllum bílaleigum sem hafa starfsleyfi, með tilviljanakenndu úrtaki innan hverrar bílaleigu. „Þar verði kannað hvort samningar um sölu á bílum í eigu bílaleiga séu í samræmi við kílómetratalningu í leigusamningum. Slíkt eftirlit þarf að eiga sér stað eins fljótt og verða má með það að markmiði að eyða allri óvissu sem kann að ríkja um sölu á notuðum bílaleigubílum.“