Ráðuneytið svarar engu um framtíð Þórólfs

Skipunartími forstjóra Samgöngustofu rennur út eftir tæpt hálft ár. Ekki fást upplýsingar um hvort staðan verði auglýst að nýju.

Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu Myndir: Samgöngustofa og Isavia

Það var í byrjun ágúst árið 2014 sem Þórólfur Árnason tók við stjórnartaumunum í Samgöngustofu. Fimm ára skipunartími hans er því senn á enda. Það er ráðherra samgöngumála sem skipar forstjóra Samgöngustofu en ekki fást svör frá Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarkonu Sigurður Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, hvort staðan verði auglýst eða hvort Þórólfur verði sjálfkrafa skipaður forstjóri á ný til ársins 2024.

Verkefni Samgöngustofu tengjast skiljanlega á ýmsan hátt íslenskri ferðaþjónustu. Það er til að mynda hlutverk stofnunarinnar að fylgjast með rekstrarhæfi íslenskra flugrekenda og geta starfsmenn hennar  kallað eftir endurskoðaðri viðskiptaáætlun frá flugrekanda sem gerir umtalsverðar breytingar á starfsemi sinni. Það fást þó ekki skýr svör frá Samgöngustofu um hvort WOW air hafi þurft að skila inn nýrri áætlun í kjölfar þess að félagið hefur nú fækkað þotunum í flugflota sínum um nærri helming. Í svari stofnunarinnar segir að ekki séu veittar upplýsingar um málefni einstakra flugrekenda.