Sáralítil fækkun áætlunarferða í janúar

Það var flogið til færri áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli í janúar en brottfarir drógust aðeins lítillega saman. Það er þó útlit fyrir meiri samdrátt næstu mánuði.

Mynd: Isavia

Niðurskurðurinn í flugáætlun WOW kom ekki að fullum þunga fram í janúar jafnvel þó ferðum félagsins hafi fækkað um nærri tólf af hundraði. Viðbótin hjá Icelandair í janúar vó að mestu upp samdráttinn hjá WOW og í heildina fækkaði áætlunarferðunum um rúmlega einn af hundraði.

Þess ber þó að geta að breiðþotur voru nýttar í stóran hluta af þeim flugum sem hurfu af áætlun WOW air. Sætisframboðið í Íslandsflugi drógst því líklega meira saman en sem nemur þessu eina prósenti. Spá Isavia fyrir janúar, sem birt var í síðustu viku, gerir engu að síður aðeins ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna í janúar dragist saman um 0,3 prósent.

Úrval áfangastaða var þó nokkuð rýrara í nýliðnum mánuði því núna voru engar ferðir til Aberdeen, Belfast, Birmingham, Miami og Tel Aviv og ferðunum fækkaði til Los Angeles, San Francisco, Chicago og fleiri borga. Á móti kom að Indlandsflug WOW var starfrækt hluta af janúar og félagið flýgur nú til Detroit í Bandaríkjunum allt árið um kring.

Helstu tíðindi af erlendu flugfélögunum voru þau að Finnair fjölgaði ferðunum sínum frá Helsinki um 9 í janúar en British Airways fækkaði sínum ferðum frá London Heathrow um 10 á sama tíma. Annars var flug þeirra erlendu í föstum skorðum í síðasta mánuði.