Segir Skúla ekki hafa annan kost

Norskur sérfræðingur í fluggeiranum segir það lofa góðu ef Indigo Partners kaupir hlut í WOW air. Fresturinn sem skuldabréfaeigendur hafa veitt bandaríska fjárfestingafélaginu til að ganga frá fjárfestingunni rennur út um mánaðamótin.

wow skuli airbus
Mynd: WOW air

Það eru miklar vangaveltur þessa dagana í Noregi um gang mála hjá Norwegian flugfélaginu. Félagið er rekið með bullandi tapi og í annað sinn á tæpu einu ári þurfa hluthafarnir að leggja félaginu til aukið fé. Einn þeirra sem reglulega greinir stöðuna í norskum fjölmiðlum er Hans Jørgen Elnæs sem hefur víðtæka reynslu af flugrekstri. Hann fylgist líka vel með gangi mála í íslenskum fluggeira og sérstaklega núna þegar stutt er í úrslitastund í samningaviðræðum Indigo Partners við Skúla Mogensen, eiganda WOW air.

„Ég tel að Skúli hafi engan annan kost en að taka tilboði Indigo Partners ef fyrirtækið lætur verða af fjárfestingunni eftir að niðurstaða áreiðanaleikakönnunar liggur fyrir nú í lok febrúar,“ segir Hans Jørgen í samtali við Túrista. Og hann segist gera ráð fyrir að Skúli haldi áfram hjá WOW ef af kaupunum verður.

„Indigo Partners, undir forystu William Franke, býr yfir langri og ábatasamri reynslu í að setja á laggirnar lággjaldaflugfélög, sérstaklega þau sem skilgreind eru sem últra lággjaldafélög eins og WizzAir og JetSmart. Fyrirtækið hefur líka keypt sig inní félög og snúið rekstri þeirra við t.d. Tiger, Frontier og  Volaris,“ segir Hans Jørgen og veltir því upp hvað fyrirtækið sjái í WOW air nú þegar félagið er ekki lengur með langdrægar Airbus A330 breiðþotur. „Ekkert af þeim flugfélögum sem tengjast Indigo Partners flýgur langar flugleiðir en WOW air gæti verið fyrsta skrefið í því að að tengja saman evrópsku og bandarísku flugfélögin sem Indigo á hlut í eða rekur. Og þá með Keflavíkurflugvöll sem starfstöð.“

Sú staðreynd að Indigo Partners á inni stóra pöntun á Airbus A321 þotum geti líka verið ein helsta skýringin á fjárfestingunni í WOW að mati Hans Jørgen því íslenska félagið gæti nýtt hluta af nýju þotunum. „Indigo Partners hafa sýnt að félagið fjárfestir í félögum til lengri tíma og það lofar góðu fyrir WOW air.“

Í dag eru 71 dagur liðinn frá því að Indigo Partners og WOW air tilkynntu að fyrirtækin ættu í viðræðum en þá voru aðeins nokkrir klukkutímar liðnir frá því Icelandair féll frá kaupum á sínum helsta keppinaut í flugi til og frá Íslandi. „Ég tel að Icelandair hafi haft raunverulegan áhuga á að taka yfir eða kaupa WOW air en tímasetningin var ekki góð. Stjórnendur Icelandair þurftu að setja í forgang að takast á við eigin vandamál og gáfu því WOW frá sér. Engu að síður er ég sannfærður um að til lengri tíma hefði það verið besta lausnin ef Icelandair hefði eignast WOW og þar með styrkt stöðu sína á heimamarkaðnum,“ segir Hans Jørgen að lokum.

Um miðjan síðasta mánuð veittu eigendur skuldabréfa í WOW air vilyrði sitt fyrir breyttum skilmálum bréfanna. Þessar breytingar voru sagðar forsenda fyrir fjárfestingu Indigo Partners en hinir breyttu skilmálar falla niður þann 28. febrúar ef ekkert verður af samningi milli William Franke, stjórnanda Indigo Partners, og Skúla Mogensen fyrir þann tíma.