Slæm staða í innanlandsflugi

Vandi Flugfélagsins Ernis varð opinber í ársbyrjun og í dag boðuðu stjórnendur Icelandair Group endurskoðun á starfsemi Air Iceland Connect.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Það liðu aðeins nokkrir klukkutímar frá því að Alþingi samþykkti tillögu að nýrri sam­göngu­áætlun og þangað til að stjórnendur Icelandair Group boðuðu endurskoðun á starfsemi Air Iceland Connect. Ástæðan er sú að afkoma fyrirtækisins er mun verri en áður en Air Iceland Connect er umsvifamesti flugrekandinn á innanlandsmarkaði.

Sá næststærsti er Flugfélagið Ernir og þar er staðan líka þung. Í ársbyrjun kyrrsetti Isavia til að mynda stærstu flugvél fyrirtækisins vegna vangoldina þjónustugjalda upp á 98 milljónir króna. Það var fyrst nú í fyrradag sem samkomulag tókst á milli Isavia og Ernis um skuldina og var kyrrsetningunni aflétt í kjölfarið.

Á sama tíma og rekstur Air Iceland Connect og Ernis hefur þyngst þá hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað. Þannig fóru um 30 þúsund færri farþegar um aðra flugstöðvar landsins en Keflavíkurflugvöll í fyrra og nemur samdrátturinn um fjórum af hundraði.