Slæmt ár hjá Icelandair

Icelandair er ekki lengur flugfélag sem rekið er með afgangi.

Mynd: Icelandair

Þrátt fyrir metár í farþegum talið þá var tapið af rekstri Icelandair 6,7 milljarðar króna í fyrra. „Árið 2018 var erfitt rekstrarár. Rekstarniðurstaðan var mun lakari en lagt var upp með í byrjun árs og endurspeglar harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Bogi segir markmiðið að bæta arðsemi og rekstur félagsins til framtíðar. „Nú þegar hafa verið gerðar breytingar á skipulagi félagsins sem endurspegla áherslur á kjarnastarfsemina, flugrekstur. Unnið er að fjölmörgum aðgerðum bæði á tekju- og kostnaðarhlið sem eiga að skila sér í bættum rekstri strax á árinu 2019. Þar má meðal annars nefna breytingu á framboði sem stuðlar að betra jafnvægi milli Evrópu og N-Ameríku í leiðarkerfi félagsins sem auðveldar stýringu þess og hámörkun tekna. Þá höfum við lagt aukna áherslu á hliðartekjur sem þegar hefur skilað árangri, sölu- og markaðsstarf félagsins verið eflt, auk þess sem innleiðing á nýju tekjustýringakerfi er á lokametrunum. Í vor, til viðbótar við núverandi tengibanka, hefst flug í nýjum tengibanka sem mun bæta nýtingu flota og flugáhafna, auka framboð og tekjur félagsins.“

Tekjur Icelandair af farþegaflutningum hækkuðu um 4 prósent í fyrra og vægi svokallaðra hliðartekna var 8,5 prósent en var rétt um 5 af hundraði árið á undan. Meginskýringin á því er líklega sú staðreynt að haustið 2017 hóf Icelandair að rukka aukalega fyrir innritaðan farangur af ódýrustu farmiðunum. Eins þurfa farþega núna að borga aukalega fyrir að velja sæti með meira fótaplássi, t.d. við neyðarútganga.