Spyr hvort uppfæra þurfi farþegaspá Isavia

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir fækkun ferðamanna í janúar og fréttir af minnkandi framboði á flugi vera áminningu um hversu kvik atvinnugrein ferðaþjónustan er.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Mynd: SAF

Erlendu ferðafólki hér á fækkaði um 8.514 síðasta mánuði en spá Isavia gerði ráð fyrir rétt rúmlega fjögur hundrað færri ferðamönnum „Það eru vissulega vonbrigði að sjá meiri raunfækkun núna en gert var ráð fyrir í spá Isavia fyrir janúar og áminning um að staða ferðaþjónustufyrirtækja er ekki jafn trygg og sumir vilja halda fram, til dæmis í samhengi við kjarasamninga,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, aðspurður þróunina.

„Að auki má svo benda á tvær fréttir sem hafa birst í vikunni sem snúa að minnkuðu flugframboði til Íslands. Annars vegar mögulega enn meiri fækkun í flugvélaflota WOW en talið var og hins vegar gjaldþrots þýska flugfélagsins Germania sem getur haft alvarleg áhrif þar sem félagið hefur þjónað einum af kjarnamörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Ef við horfum á þetta allt í samhengi má velta fyrir sér hvort ástæða sé til að Isavia uppfæri farþegaspá sína þegar betri upplýsingar liggja fyrir um þau áhrif sem þetta hefur,“ segir Jóhannes Þór.

Að mati framkvæmdastjóra SAF sýna þessi ofantöldu atriði hversu kvik atvinnugrein ferðaþjónustan er og hversu mikilvæg áreiðanleg gögn eru fyrir greinina. „Þá er sama hvort litið er til söfnunar gagna eða úrvinnslu þeirra. Við verðum að leggja jafnvel enn meiri áherslu á þennan þátt en nú þegar hefur verið gert því að fyrirtæki þurfa að hafa sem áreiðanlegust gögn til að byggja áætlanir sínar á. Þó margt gott hafi verið unnið í þeim efnum á síðustu árum er rými til að gera betur.“

Jóhannes undirstrikar þó að hjá SAF hafi ítrekað verið bent á að  fjöldatölurnar einar segja mjög takmarkaða sögu um gang mála. „Það skiptir til dæmis miklu hvernig skipting farþegafjöldans verður eftir markaðssvæðum, þar sem við þekkjum að hegðunarmynstur ferðamanna er mjög ólíkt eftir því hvaðan þeir koma og breytingar á hlutfalli milli markaðssvæða getur því haft mikil áhrif á ólíkar greinar innan ferðaþjónustunnar og afkomu fyrirtækja á mismunandi svæðum á landinu. Þar sjáum við til dæmis í fyrra að fækkun farþega frá Þýskalandi hafði töluverð neikvæð áhrif, ekki síst á landsbyggðinni.“