Sýna ferðaskrifstofum Andra Más áhuga

Við gjaldþrot Primera Air flutti Andri Már Ingólfsson eignarhaldið á ferðskrifstofuveldi sínu til Danmerkur. Fyrirtækið er álitlegur kostur í augum þónokkra.

Fall Primera Air var mikið högg fyrir Primera Travel Group sem nú heitir Travelco Nordic. Mynd: London Stansted

Þegar flugfélagið Primera Air varð gjaldþrota í byrjun október voru allar ferðaskrifstofurnar sem tilheyrðu móðurfélagi flugfélagsins, Primera Travel Group, færðar yfir í fyrirtækið Travelco Nordic sem skráð er í Danmörku. Það er að öllu leyti í eigu Andra Más Ingólfssonar líkt og gamla móðurfélagið.

Innan Travelco Nordic eru í dag ferðakrifstofur á öllum fimm Norðurlöndunum og þar á meðal Heimsferðir hér á landi. Og þó hið nýja danska móðurfélag sé ekki til sölu, samkvæmt Peder Hornshøj framkvæmdastjóra, þá hafa fjárfestar borið í það víurnar. „Í framhaldi af gjaldþroti Primera Air þá hafa margir sýnt okkur áhuga og haft samband. Og fyrir kurteisis sakir þá höfum við talað við nokkra. Það er jákvætt að við séum talin spennandi kostur en ég geri ekki ráð fyrir sölu.“

Primera Air sá um að flytja viðskiptavini ferðaskrifstofanna hans Andra Más á suðrænar slóðir og það kallaði því að töluverða uppstökun þegar flugfélag samsteypunnar fór á hausinn. Hornshøj segir að gangurinn sé hins vegar góður núna, salan góð og starfsmennirnir jákvæðir fyrir komandi sumaravertíð.

Eins og Túristi greindi frá þá hafa Heimsferðir skorið niður sumarprógramm sitt því í stað daglegra brottfara frá Keflavíkurflugvelli til sólarstaða þá munu ferðirnar takmarkast við virku dagana og úrvalið af ferðum til Slóveníu og Króatíu því minna en lagt var upp með.

Eins og fram hefur komið tapaði Arion banki um þremur milljörðum króna á gjaldþroti Primera Air.