Þriðja breiðþotan farin

Nú er engin af 345 sæta farþegaþotum WOW air eftir á landinu.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

Þrjár Airbus A330 breiðþotur bættust við flugflota WOW air þegar félagið hóf áætlunarflug til San Francisco og Los Angeles í sumarbyrjun árið 2016. Nú hefur félagið lagt niður ferðir sínar til borganna tveggja og Skúli Mogensen hefur ekki lengur áform um landvinninga í Asíu. Þar með hefur WOW ekki þörf fyrir langdrægar breiðþotur og í lok nóvember skilaði félagið tveimur slíkum til Tarbes flugvallar í suðurhluta Frakklands. Sú þriðja, TF-GAY, hélt þangað í gær eftir að hafa staðið óhreyfð á Keflavíkurflugvelli í 11 daga samkvæmt upplýsingum af Flightradar.

Þoturnar þrjár eru þó ennþá skráðar í umsjón WOW air í loftfaraskrá Samgöngustofu. Samkvæmt svari frá stofnuninni þá er skráin uppfærð eftir því sem óskir flugrekenda um breytingar berast. Engin slík hefur borist Samgöngustofu varðandi umræddar þrjár breiðþotur.