Þunnskipaðri þotur

Farþegum WOW air fækkaði hlutfallslega meira en sem nemur samdrætti í flugi félagsins í janúar.

wow radir
Það voru fleiri laus sæti í þotum WOW air í nýliðnum janúar en verið hefur á þessum tíma árs. Mynd: WOW air

Farmiðaverðið hjá WOW air hefur verið lágt síðustu misseri og eins hefur flugfélagið dregið úr framboði og sameinað ferðir. Þrátt fyrir það lækkaði sætanýtingin hjá flugfélaginu í síðasta mánuði niður í áttatíu prósent samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Svo lág hefur nýtingin ekki verið hjá WOW air í janúar síðan félagið hóf að birta mánaðarlegar farþegatölur árið 2016.

Það var reyndar vitað að tölurnar hjá WOW air í janúar yrðu verri en oft áður. Isavia gaf það út að sætanýting í Íslandsflugi hefði lækkað í síðasta mánuði og skýringuna á því var ósennilega bara að finna í lækkun hjá Icelandair. Þar mældist nú rétt um 72 prósent eða 8 prósentustigum lakari en hjá WOW. Við samanburð á þessum tveimur flugfélögum ber þó að hafa í huga að lággjaldaflugfélög eru oftast með nokkru hærri nýtingu en þessi hefðbundu vegna þess að farmiðaverðið er alla jafna lægra.

Síðustu vikur hefur flugfloti WOW air dregist saman um 8 þotur og í kjölfarið hafa verið gerðar breytingar á flugáætlun félagins. Af þessum sökum drógst framboð á flugsætum hjá WOW air saman um fjórðung í janúar samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu. Gera má ráð fyrir framboðið minnki ennþá meira í febrúar því í síðasta mánuði fór félagið sínar síðustu ferðir til nokkurra áfangastaða, t.d Los Angeles, St. Louis og Chicago. Farþegaspá Isavia gerir líka ráð fyrir töluvert færri farþegum í febrúar.