Úrslitastund WOW air á morgun

Upplýst verður um niðurstöðu í samningaviðræðum Indigo Partners og WOW air með tilkynningu til kauphallar. Ekki fást svör um hvort það verði gert á morgun eða föstudag.

Mynd: London Stansted

Versnandi staða íslensku flugfélaganna tveggja hefur verið mikið til umræðu síðustu misseri og innan stjórnarráðsins var sett á laggirnar sérstök nefnd sem undirbúa átti áætlun ef kerfislega mikilvæg fyrirtæki eins og Icelandair og WOW air lentu í vanda. Og það er engin launung að staða WOW air hefur verið sérstaklega tvísýn allt frá því í haust.

Á morgun rennur hins vegar upp dagurinn sem skuldabréfaeigendur í WOW air gáfu Indigo Partners og Skúla Mogensen til að ná saman um fjárfestingu bandaríska fyrirtækisins í lággjaldaflugfélaginu. Viðsemjendur hafa ekki viljað láta hafa neitt eftir sér um gang mála en samkvæmt svari frá WOW air, við fyrirspurn Túrista, þá mun félagið senda frá sér tilkynningu til kauphallar um niðurstöðu viðræðnanna. Í framhaldinu verður tilkynningin birt á heimasíðu WOW air en ekki fást svör við því hvort þessar upplýsingar verði veittar á morgun 28. febrúar eða föstudaginn 1. mars.