Viðsemjandi Skúla valinn leiðtogi ársins

Hinn áttræði William Franke verður sæmdur virtum verðlaunum í fluggeiranum.

Þotur þeirra flugfélaga sem William Franke og Indigo Partners eiga stóran hlut í. WOW gæti orðið eitt þeirra áður en þessi mánuður er liðinn. Tölvuteikning: Airbus

Síðustu 12 vikur hafa þeir William Franke, stjórnandi Indigo Partners, og Skúli Mogensen, eigandi WOW air, setið að samningaborði og rætt fyrirhugaða fjárfestingu þess fyrrnefnda í WOW air. Ef allt gengur eftir hyggst Franke leggja eins mikið fé og þörf er á til að koma WOW air á fætur á ný eftir taprekstur síðustu ára.

Bandaríkjamaðurinn William Franke er enginn nýgræðingur í því að taka til í rekstri flugfélaga og hefur auðgast á eign sinni í svokölluðum últra lággjaldaflugfélögum út um víða veröld. Og fyrir þessi störf sín verður Franke sæmdur nafnbótinni „Framúrskarandi leiðtogi ársins 2019″ þegar ein virtustu verðlaunin í fluggeiranum, ATW Airline Industry Award, verða afhent í New York þann 26. mars næstkomandi.

Þegar að því kemur þá verður WOW air, ef allt gengur upp, orðið eitt þeirra flugfélaga sem William Franke fer fyrir. Fresturinn sem hann og Skúli hafa til að ná saman um fjárfestinguna í WOW air rennur út eftir viku.

Burtséð frá áhuga Franke á fjárfestingu í WOW air þá þekkir hann ágætlega til Íslandsflugs í gegnum eignarhald sitt og stjórnarformennsku í Wizz Air. Þetta ungverska flugfélag er nefnilega eitt umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli en Wizz air og WOW eiga einmitt fjólubláa einkennislitinn sameiginlegan.  Og svo gæti farið að Franke verði stjórnarformaður þeirra beggja áður en langt um líður, í krafi eignarhalds Indigo Partners, en enska orðið Indigo þýðir einmitt dimmfjólublár á íslensku.

Þess má geta á Wizz Air var valið lággjaldaflugfélag ársins hjá fagritinu CAPA árið 2016 og WOW air fékk verðlaunin í lok síðasta árs.