Vildarpunktar í uppboði á Saga Class sætum

Farþegar Icelandair geta á næstunni nýtt punkta í staðinn fyrir peninga þegar þeir leggja inn tilboð í betri sætin í Boeing vélum félagsins.

icelandair radir
Farþegar á almennu farrými hjá Icelandair geta boðið í sætin fremst í vélinni. Mynd: Icelandair

Þeir sem eiga bókuð sæti á almennu farrými hjá Icelandair býðst reglulega að leggja inn boð í flutning yfir á Saga Premium, sem áður hét Saga Class.

Ef flugfélagið tekur tilboðinu greiðir farþeginn það verð sem hann bauð og fær úthlutað plássi á fremsta farrými. Til þessa hefur aðeins verið hægt að greiða fyrir þessa uppfærslu með peningum en nú stendur til að gera fólki kleift að nýta vildarpunkta í uppboðinu að sögn Ásdísar Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.

Fjöldamörg flugfélög standa fyrir sambærilegum uppboðum á lausum sætum á fremstu farrýmunum og þá er oftast aðeins hægt að borga með peningum. Farþegar SAS hafa þó um skeið getað nýtt ferðapunkta í uppfærsluna og því fordæmi fylgir Icelandair innan skamms.

Ásdís segir uppboðin, sem kallast Class Up hjá Icelandair, vera gríðarlega mikið nýtt. Óseldu sætin á Saga Premium eru því greinilega eftirsótt en verðmunurinn á þeim og ódýrustu miðunum um borð getur verið margfaldur. Sem dæmi má nefna að farþegi sem bókar í dag miða með Icelandair til New York eftir viku og heim fjórum dögum síðar borgar tæpar 59 þúsund krónur fyrir Economy Light farseðil. Sæti í sömu flugvél á Saga Premium kostar hins vegar rúmlega 208 þúsund krónur. Ef ferðinni er heitið til Óslóar þessa sömu daga kostar ódýrasti miðinn rúmar 22 þúsund krónur en sæti í fremsta farrými er 99 þúsund krónum dýrara.

Verðbilið er því verulegt og  það getur því verið ódýrara að bjóða í þess háttar sæti eftir á. Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Icelandair taki tilboði upp á nokkur þúsund krónur eða fáa vildarpunkta fyrir uppfærsluna á Saga Premium. Á því farrými er maturinn innifalinn, bæði í flugferðinni sjálfir og fyrir brottför í betri stofu Icelandair, farangursheimildin er rýmri og biðin við innritunarborðin styttri.