WOW verðleggur sig út af markaðnum

Af fargjöldunum að dæma þá munu þotur WOW air ekki fljúga til Dusseldorf í sumar. Framboð á Íslandsflugi þaðan hefur dregist verulega saman síðustu ár.

Frá Dusseldorf Mynd: Ferðamálaráð Dusseldorf

Þýsk flugfélög hafa um árabil haldið úti sumarflugi til Íslands frá Dusseldorf. Þotur Airberlin flugu þaðan mörg sumar í samkeppni við Lufthansa. Það síðarnefnda lét svo Eurowings, dótturfélagi sínu, eftir Íslandsflugið frá Dusseldorf.

Þýska borgin hefur líka verið á sumaráætlun WOW air og þegar mest lét þá flugu rúmlega 25 þúsund farþegar til Íslands frá Dusseldorf frá vori og fram á haust með þremur ólíkum flugfélögum. Síðastliðið sumar heltust hinsvegar þýsku flugfélögin úr lestinni og WOW sat eitt að ferðunum milli Íslands og Dusseldorf. Þá fór farþegafjöldinn fór niður í rúmlega 11 þúsund einstaklinga samkvæmt tölum þýskra flugmálayfirvalda. Þau íslensku veita engar slíkar upplýsingar og hefur Túristi kært þá afstöðu.

Icelandair boðaði komu sín til Dusseldorf síðastliðið haust en seinkaði svo jómfrúarferðinni þar til nú í vor. Borgin verður eini nýi áfangastaðurinn í leiðakerfi félagsins í sumar og útlit var fyrir að íslensku félögin tvö myndu þá eiga í samkeppni um farþega á leiðinni milli Íslands og Dusseldorf.

Af fargjöldunum að dæma þá munu þotur WOW hins vegar ekki fljúga til þýsku borgarinnar í sumar. Nú kostar farið þangað með WOW í sumar um 180 þúsund krónur, báðar leiðir, á meðan ódýrustu miðarnir hjá Icelandair í sumar eru á rétt um 30 þúsund. Svona óeðlileg verðlagning, eins og finna má í bókunarvél WOW í dag, er oftast undanfari niðurfellingar á flugleið. Með háa verðinu er nefnilega komið í veg fyrir að farþegar bóki miða og í framhaldinu er flugleiðin felld niður.

Það stefnir því í annað sumarið í röð þar sem farþegafjöldinn í Íslandsfluginu frá Dusseldorf er um helmingi lægri en í hittifyrra og árin þar á undan.