9 þotur eftir

Tvær af þeim ellefu þotum sem WOW air er með í flota sínum hafa verið kyrrsettar samkvæmt fréttum. Tvö leigufyrirtæki eiga þær flugvélarnar sem eftir eru.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Þotan TF-PRO sem flaug með farþega WOW air til Montreal í Kanada í gær var kyrrsett úti að beiðni eiganda flugvélarinnar samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Sami leigusali á jafnframt Airbus þotuna TF-NOW sem WOW framleigði til Flórída í vetur og hefur hún verið nýtt í flug milli Miami og Kúbu. Hún hefur þó verið á jörðu niðri síðan í gær.

Þá eru eftir níu þotur í flota WOW og eru sjö þeirra í eigu Air Lease Corporation og tvær á vegum fyrirtækjanna Tungnaa Aviation Lease og SOG Aviation Lease. Þessi tvö síðarnefndu fyrirtæki eru líklega í eigu sama aðila þar þau eru skráð á sama heimilisfang í Dublin á Írlandi.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag þá er skuld WOW air við Air Lease Corporation komin upp í 1,6 milljarð króna. Ef vanskilin eru þetta mikil í dag má gera ráð fyrir að erfitt gæti reynst fyrir stjórnendur WOW að halda vélunum sjö ef eigandinn kallar eftir þeim. Forsvarsfólk Isavia gæti þó gripið til kyrrsetningar en eins og áður hefur komið fram þá mun vera samkomulag milli Isavia og WOW um að flugfélagið sé alltaf með eina flugvél við Leifsstöð. Og það kann að skýra afhverju WOW þurfti að aflýsa og seinka ferðum til London og Dublin í morgun því þá var félagið bara með sjö þotur á Keflavíkurflugvelli en flugáætlunin gerði ráð fyrir átta morgunflugum. Félagið hefur þá þurft að skilja eina flugvél eftir og því fellt niður ferðir til tveggja borga.

Farþegar sem áttu bókað flug frá Montreal til Íslands komast væntanlega til landsins í dag þar sem annarri þotu á vegum WOW var flogið til Kanada seint í gærkvöld. Sú á að snúa tilbaka klukkan þrjú að íslenskum tíma.