Áfangastaðurinn Ísland stendur undir framboðinu

Bandaríska flugfélagið United Airlines hóf Íslandsflug í fyrra frá Newark við New York borg. Túristi ræddi við framkvæmdastjóra félagsins sem hefur umsjón með útgerðinni hér á landi.

Þota United Airlines við Leifsstöð. Mynd: Isavia

„Fyrsta tímabilið okkar á Íslandi gekk vel og þess vegna komum við aftur nú í sumar. Að þessu sinni erum við ekki nýi aðilinn á markaðnum,” segir Bob Schumacher, framkvæmdastjóri United Airlines fyrir Bretland og Ísland. Hann bætir því við að síðasta sumar hafi sætanýtingin í fluginu til Íslands verið mjög góð eða um níutíu prósent.

„Við erum á góðum stað um þessar mundir. Félagið er rekið með hagnaði og hefur fjárfest í stækkun starfsstöðva, þar á meðal við Newark flugvöll. Við bjóðum því ekki eingöngu upp á beint flug milli tveggja áfangastaða því hið stóra leiðakerfi okkar gerir það að verkum að farþegar okkar í Íslandsfluginu koma alls staðar frá í Bandaríkjunum,” segir Schumacher.

Hann bætir því við að um helmingur farþega United Airlines, í ferðunum til Íslands, komi frá New York svæðinu en auk þess hafi flugið selst vel frá borgum eins og Denver, Miami, Ft. Lauderdale, Houston, San Jose og Charlotte. Og þar sem leiðakerfi félagsins teygir anga sína víða þá er líka töluverð eftirspurn eftir Íslandsflugi frá höfuðborgum Kólumbíu og Mexíkó að sögn Schumacher.

Auk United Airlines þá hafa þrjú önnur flugfélög boðið upp á flug milli New York og Íslands en eftir þrot WOW eru Delta og Icelandair eftir. Aðspurður um þessa miklu samkeppni þá er það mat Schumacher að styrkur Íslands sem áfangastaðar standi undir framboðinu. Hann vill líka meina að United nái til mismunandi hópa. „Úrvalið hjá okkur er fjölbreytt og hentar mismunandi hópum. Hvort sem þú vilt ferðast á ódýrara farrými eða vilt meiri þjónustu eða jafnvel sitja á fyrsta farrými. Það er ekki bara fólk í vinnuferðum sem flýgur með okkur.”

Sumaráætlun United Airlines gerir ráð fyrir flugi hingað frá júní og fram í september og ekki stendur til að lengja tímabilið. „Við teljum Ísland vera árstíðabundin áfangastað og þá aðallega vegna veðursins. Fyrirtækjamarkaðurinn verður líka að vera til staðar til að standa undir heilisársflugi. Fjögurra mánaðaa útgerð hentar okkur best.”

Þegar Túristi ræddi við framkvæmdastjóra United þá var staða WOW ennþá óljós og hann vildi lítið tjá sig um ástandið á íslenskum flugmarkaði. „Við eyðum ekki tíma okkar í að fylgjast með keppinautum. Við vorum vel undirbúin þegar við komum inn á íslenska markaðinn og erum því með réttu vélarnar, áfangastaðina og starfsfólkið. Auk þess teljum við okkur bjóða upp á góða þjónustu.”

Umræðan um losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugreksturs verður sífellt háværari. Hvað gerir United til að draga úr mengun vegna starfseminnar? „Stærsti kosntaðarliðurinn við að fljúga flugvélum tengist olíunni og hún hefur hækkað í verði. Við kaupum lífeldsneyti og höfum skuldbundið okkur til að draga úr losun um helming fyrir árið 2050. Viðskiptamódelið okkar getur ekki aðeins verið sjálfbært þegar litið er til rekstrar heldur verður það líka að vera það þegar horft er til umhverfisþátta. Við teljum okkur vera leiðandi í Bandaríkjunum á sviði umhverfismála, fjárfestum í nýjum flugvélum og nýrri tækni,” segir Schumacher. Hann bætir því við að við flugstöðvar notist United Airlines  við rafmagnsbíla í auknum mæli og eins séu umbúðir og annað sem fellur til úr flugvélunum flokkað og endurunnið.

Íslandsflug United Airlines á ný 7. júní og stendur yfir fram í september.