Bann Breta riðlar áætlun Icelandair

MAX þotur Icelandair hafa verið mikið nýttar í áætlunarflug félagsins til Bretlands. Nú hafa yfirvöld þar í landi sett bann við umferð þessara flugvéla.

Mynd: Icelandair

Bresk yf­ir­völd hafa bannað allt flug þota af gerðinni Boeing 737 MAX 8 í loft­helgi sinni. Það var Mbl.is sem greindi fyrst frá og þar segir að í yf­ir­lýs­ingu breskra flug­mála­yf­ir­valda (CAA) komi fram að um tíma­bundna varúðarráðstöf­un sé að ræða þar sem gögn liggi ekki fyr­ir úr flug­rit­um vél­ar Et­hi­opi­an Air­lines, sem  hrapaði til jarðar á sunnudag. Gef­in hafi verið út fyr­ir­mæli um að eng­in vél af gerðinni Boeing 737 MAX 8 geti lent, tekið á loft eða flogið inn­an breskr­ar loft­helgi.

Þetta bann hefur verulega áhrif á flug Icelandair því félagið hefur nýtt MAX þoturnar umtalsvert í flug til breskra áfangastaða. Þannig fór TF-ICE til London í morgun og átti að fljúga þangað aftur seinnipartinn í dag. TF-ICU flaug bæði til London og Glasgow í gær og þriðja MAX þota Icelandair var í Glasgow í fyrrdag. Áætlun Icelandair gerði ráð fyrir að þessar þotur myndu fljúga áfram til Bretlands næstu daga.

Sumaráætlun Icelandair byggir á því að níu MAX þotur séu í flota félagsins, bæði ef gerðinni MAX 8 og MAX 9. Ljóst er að ef bannið í Bretlandi varir lengi og fleiri lönd fylgja fordæmi Breta þá gengur flugáætlun Icelandair, frá og með vorinu, ólíklega upp eins og staðan er í dag.

Norska flugfélagið Norwegian hefur kyrrsett sínar MAX 8 þotur frá og með deginum í dag en félagið hefur meðal annars nýtt þær í flug til og frá Íslandi. Air Canada flýgur einnig MAX þotum til Íslands frá Toronto og Montreal.