Biðin eftir Boeing MAX gæti orðið lengri í Evrópu

Evrópsk flugmálayfirvöld munu ekki sjálfkrafa gefa grænt ljós á flug Boeing MAX þota jafnvel þó bandarísk yfirvöld aflétti kyrrsettningu flugvélanna.

Mynd: Boeing

Þegar nýjar farþegaþotur frá Boeing verksmiðjunum í Bandaríkjunum eru samþykktar af þarlendum yfirvöldum þá fá þær vanalega sjálfkrafa leyfi frá Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins (EASA) í framhaldinu. Þessu er eins farið þegar kemur að heimildum fyrir evrópskar Airbus þotur vestanhafs.

Nú boðar hins vegar forstöðumaður EASA breytta stefnu því á fundi með samgöngunefnd ESB í fyrradag sagði hann að kyrrsetningu á Boeing MAX þotunum í evrópsku loftrými yrði ekki aflétt fyrr en sérfræðingar stofnunarinnar hefðu sjálfir gengið úr skugga um að viðunandi betrumbætur hafi verið gerðar á búnaði þotanna. Kanadísk flugmálayfirvöld ætla líka að vinna sjálfstætt að sinni leyfisveitingu fyrir MAX þoturnar.

Í fréttum af þessari afstöðu evrópskra og kanadískra flugmálayfirvalda eru leiddar líkur að því að þetta verði til þess að lengja þann tíma eitthvað sem MAX þotunum verður haldið á jörðu niðri. Eins og áður komið fram gera stjórnendur Air Canada ekki ráð fyrir að taka sínar þotur í notkun fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí.