WOW og Indigo þurfa lengri tíma

Samningaviðræður milli Skúla Mogensen og Indigo Partners halda áfram í að minnsta kosti einn mánuð í viðbót. Ekki liggur fyrir hvort eigendur skuldabréfa í WOW air þurfi að veita samþykki fyrir þessari framlengingu.

Mynd: London Stansted

Samkomulag um kaup bandaríska fjárfestingafélagsins Indigo Partners á nærri helmingshlut í WOW air er ekki í höfn. En á miðnætti rann út fresturinn sem viðsemjendur höfðu fengið til að ganga frá samningi. Í tilkynningu sem birt var á heimasíðu WOW air um klukkan ellefu í gærkvöld segir að viðræður haldi áfram og vonast sé til að niðurstaða liggi fyrir í síðasta lagi 29. mars.

Þá verða fjórir mánuðir liðnir frá því að kaupsamningi Icelandair á WOW air var rift en sama dag hófst svo samningalota Skúla Mogensen, eina eiganda WOW, og Indigo Partners. Hún hefur nú staðið í þrjá mánuði. Sá langi tími og eftirgjöf skuldabréfaeigenda í WOW air hefur ekki dugað þeim Skúla Mogensen, eiganda WOW air, og William Franke, stjórnanda Indigo Partners, til að ná samkomulagi. Áður hefur  þó verið gefið út að heildarfjárfesting Indigo í íslenska lággjaldaflugfélaginu geti numið hátt í 9 milljörðum króna. Bandarískt fyrirtæki eða einstaklingur getur þó ekki átt meirihluta í evrópskum flugfélögum og þar með yrði Skúli líklega áfram meirihlutaeigandi. Það yrði þá líklega eingöngu að nafninu til líkt og áður hefur verið rakið.

Ekki kemur fram í tilkynningu WOW air, sem birt var í gærkvöld, hvort leita þurfi samþykkis eiganda skuldabréfa í WOW air fyrir seinkun viðræðna líkt og þurfti síðast.