Bjargvættur WOW gæti fengið stærri hlut

Nú er unnið að því að fá fjárfesta að 51 prósent hlut í WOW air. Sá sem leggur flugfélaginu til fjármagn gæti þó verið í stöðu til að fara fram á meira.

Mynd: London Stansted

Nú er ljóst að Skúli Mogensen er ekki lengur eini eigandi WOW air þar sem fjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboði félagsins síðastliðið haust hafa breytt kröfum sínum í hlutafé. Mismunandi sögum fór að aðdraganda þessara breytinga í gær því Skúli sagði skuldabréfaeigendur hafa samþykkt breytinguna en samkvæmt frétt Mbl.is voru það hinsvegar fjár­fest­ar sem ákváðu að taka fé­lagið yfir.

Á sama hátt munu allir kröfuhafar, utan Isavia, ekki hafa samið um umbreytingu á kröfum sínum eins og skilja mátti fyrstu fréttir af málinu  sem birtust á vef Rúv. Ennþá mun þó vera ósamið við stóra kröfuhafa eins og flugvélaleigur og ekki fást upplýsingar frá Arion banka um hvort bankinn ætli að umbreyta sínum kröfum.

Hvað sem líður misræminu í aðdraganda eigendabreytinganna og stöðu samninga við kröfuhafa þá mun það vera stefna skuldabréfaeigenda og kröfuhafa að selja fjárfestum 51 prósent hlut í félaginu fyrir 5 milljarða króna. Fréttablaðið segir frá því í dag að eigendur skuldabréfa munu eignast 23 prósenta hlut í félaginu og aðrir lánardrottnar fá 26 prósenta hlut. Fjárfestirinn sem leggja á flugfélaginu til 40 milljónir dala, 4,8 milljarða kr., í nýtt hlutafé fær því 51 prósent í félaginu.

Í ljósi þess hve tíminn er knappur og lausafjárþörf WOW air mikil þá má telja líklegt að áhugasamir fjárfestar geta fengið mun stærri hlut í flugfélaginu. Og að þessu ýjar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í viðtali við Vísi í morgun. Þar segir hann segir erfitt að skilja afhverju þeir sem leggja eiga nýtt áhættufjármagn til WOW air eignist ekki félagið að fullu.

Staða WOW ætti að vera forstjóra Icelandair vel þekkt enda keypti hann keppinautinn í nóvember og gerði aðra tilraun um síðustu helgi. Í bæði skiptin var það samt niðurstaða stjórnenda Icelandair að láta ekki af yfirtöku verða.