Boðar nærri skuldlaust WOW air

WOW air kynnir á morgun hvernig breyta á kröfum í hlutafé og þannig bjarga félaginu frá gjaldþroti.

Mynd: WOW air

Stuttu eftir að ljóst varð að Icelandair kemur ekki að yfirtöku WOW air þá sendi það síðarnefnda frá sér tilkynningu. Þar kemur fram að meiri­hluti skulda­bréfa­eig­enda félagsins og aðrir kröfu­haf­ar eigi í viðræðum um að kom­ast að sam­komu­lagi um fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins. Nánari upplýsingar um málið verða veittar á morgun samkvæmt því sem segir í tölvupósti Skúla Mogensen, forstjóra WOW og eiganda, til starfsmanna.

Í viðtali Morgunblaðsins nú í kvöld, við full­trúa fjár­festa sem tók þátt í skulda­bréfa­út­boði WOW í haust, kemur fram að skulda­bréfa­eig­endur og kröfu­hafar hafi fundað um málið alla helg­ina. Hug­mynd­ þeirra sé að af­skrifa skuld­ir og bjóða 51 prósent í WOW til kaups. Munu nýir aðilar í eig­enda­hópn­um njóta for­gangs, meðal ann­ars varðandi sölu bréfa í end­ur­skipu­lögðu fé­lagi.

Ekki liggur fyrir hvort þessi endurskipulagning á skuldum WOW geri ráð fyrir að ógreidd lendingagjöld félagsins á Keflavíkurflugvelli verði afskrifuð. Auk þess eru vísbendingar um að skuld WOW við Arion banka sé veruleg en um áramótin námu kröfur bankans á flugiðnaðinn fjórum milljörðum króna. Ekki hafa fengist upplýsingar frá Arion hvort þarna séu um að ræða kröfur á hendur WOW air að öllu eða einhverju leyti. Þess má þó geta að Icelandair er ekki í viðskiptum við bankann.