Boeing uppfærir hugbúnað í MAX þotunum

Fleiri lönd og flugfélög kyrrsetja Boeing MAX 8 þotur sínar. Þrjú flugfélög nýta MAX þotur í Íslandsflug.

Fyrsta Boeing MAX þota Icelandair. Mynd: Icelandair

Rannsókn flugslyssins í Eþíópíu á sunnudag er skammt á veg komin og ekki liggur fyrir hvort einhver líkindi eru með því og hrapi flugvélar Lion Air til jarðar í Indónesíu í október. Í báðum tilvikum var um að ræða nýjar Boeing MAX 8 þotur sem hröpuðu stuttu eftir flugtak. Alls fórust 346 farþegar ásamt áhöfnum í slysunum tveimur.

Bandarísk loftferðayfirvöld, FAA, gáfu það út í gærkvöld að flugvélaframleiðandinn Boeing yrði að gera breytingar á þotum af þessari tegund en að þær yrðu þó ekki kyrrsettar. Í kjölfar yfirlýsingar FAA gáfu stjórnendur Boeing út að hugbúnaður þotanna yrði lagaður.

Stuttu eftir hrap flugvélarinnar í Eþíópíu á sunnudag kyrrsettu Kínverjar allar Boeing MAX þotur þar í landi en þangað hefur stærsti hluti af þessari nýjustu tegund Boeing þota farið. Nú hafa stjórnvöld í Singapúr einnig bannað MAX þotur í sínum loftrými samkvæmt frétt Reuters. Auk þess hafa einstaka flugfélög kyrrsett sínar þotur af gerðinni Boeing MAX 8, þar meðal Royal Air Maroc, Aeromexico, Gol Airlines og Comair. Áður höfðu stjórnendur Ethiopian Airlines, eigandi flugvélarinnar sem hrapaði á sunnudag, ákveðið að þær fjórar MAX þotur sem félagið rekur verði ekki sendar á loft tímabundið.

Hlutabréf Boeing lækkuðu töluvert í gær og gengi Icelandair lækkaði um nærri tíund. Skýringin kann að liggja í óvissunni sem nú ríkir um Boeing þoturnar en Icelandair hefur fest kaup á 16 Boeing MAX 8 og MAX 9 þotum. Þrjár MAX 8 þotur í flugflota félagsins í dag og líkt og kom fram í  viðtali við Jens Þórðarson, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair, í fréttum RÚV í gær þá er ekki ætlunin að kyrrsetja þoturnar. Hann sagði þó að töluvert væri um að farþegar lístu yfir áhyggjum af vélunum.

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem nýtir Boeing MAX 8 þotur í flug til og frá Íslandi. Það gerir einnig norska flugfélagið Norwegian og hið kanadíska Air Canada en Íslandsflug þess hefst reyndar ekki á ný fyrr en í sumarbyrjun. Ekkert þessara félaga hefur tekið MAX þotur sínar úr umferð.