Brottförum WOW frá Þýskalandi hefur seinkað

Þotur WOW air fóru ekki í loftið frá Berlín og Frankfurt fyrr en rúmum tveimur tímum eftir áætlun.

Mynd: London Stansted

Það er mikil spenna í kringum WOW air þessa stundina og morgunfréttir stærstu fjölmiðla landsins báru þess merki að vel er fylgst með ferðum flugfélagsins. Í gær fór flugáætlun félagsins úr skorðum sem mátti meðal annars rekja til þess að þotan sem flaug til Montreal í Kanada á sunnudag snéri ekki heim á ný. Ennþá er hún úti í Montreal og sagði Morgunblaðið frá því að hún hefði verið kyrrsett að beiðni eiganda þotunnar.

Í dag töfðust svo brottfarir þota WOW air frá Berlín og Frankfurt og fengust ekki upplýsingar um ástæður þess hjá fjölmiðlafulltrúa félagsins eins og Túristi greindi frá í dag. Þoturnar foru svo í loftið síðar og eru væntanlegar til Keflavíkurflugvallar um fimmleytið. Tveimur og hálfum tíma á eftir áætlun.

Uppfært: Í upphaflegum texta greinarinnar var fjallað um þoturnar væru ekki farnar á loft frá Berlín og Frankfurt og voru þá 2 tímar liðnir frá upphaflegum brottfarartíma. Aldrei fengust svör frá blaðafulltrúa WOW air um ástæður tafarinnar. Fréttin hefur verið uppfærð miðað við upplýsingar af heimsíðum flugvallanna í Frankfurt, Berlín og Keflavík.