Dýrara fyrir ferðatöskuna en farþegann

Hjá WOW air hefur verðskrá fyrir aukagjöld verið breytt og þar með er verðið á innrituðum farangri komið upp fyrir lægstu fargjöldin.

kef taska 860
Það er ekki ódýrt að fjlúga með ferðatösku á milli landa. Mynd: Isavia

Ódýrustu farmiðarnir með WOW air til London kosta 4.999 krónur en verðið ríflega tvöfaldast ef farþeginn innritar farangur. Þá bætast nefnilega 5.399 krónur við á hvorri leið. Þetta töskugjald hefur hækkað um 900 krónur frá síðustu verðkönnun Túrista í nóvember sl. Ef hefðbundin handfarangurstaska nægir farþeganum þá rukkar WOW air 4.199 krónur fyrir þess háttar farangur á styttri leiðum. Ef ferðinni er hins vegar heitið til Tenerife, Tel Aviv eða Norður-Ameríku þá er kostar 6.599 krónur að taka 20 kílóa tösku með og 5.399 kr. fyrir handfarangurinn. Þessar upphæðir eiga aðeins við ef farangursheimild er bókuð um leið og gengið er frá farmiðapöntun. Annars er gjaldið hærra.

Aðspurð um þessar verðhækkanir þá segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, að um sé að ræða leiðréttingu vegna gengis. Bendir hún á að íslenska verðskráin hafi ekki verið uppfærð síðan gengi bandarísks dollara var í kringum 100 krónur. „Núverandi verðskrá miðast við gengið 120 kr. sem hefur verið raunstaðan undanfarna mánuði.“

WOW er langt frá því eina flugfélagið á Keflavíkurflugvelli sem rukkar aukalega fyrir innritaðar töskur en flugfélögin fara þó ólíkar leiðir í verðlagningu. Hjá British Airways og Delta er til að mynda ekki hægt að bóka farangur með ódýrustu farmiðunum. Og það virðist aldrei borga sig að bæta tösku við Economy Light fargjaldið hjá Icelandair því verðmunurinn á því og hefðbundnum farmiða, þar sem taska er innifalin, er vanalega minni en sem nemur töskugjaldinu (5280 kr. innan Evrópu og 6180 kr. til N-Ameríku).