Eitt af bestu nýju hótelum heims

Retreat hótelið við Bláa lónið fær viðurkenningu vestanhafs.

The Reatreat hótelið við Bláa lónið. Mynd: Bláa lónið

Bandaríska ferðaritið Travel+Leisure birtir árlega lista yfir bestu nýju hótel ársins og að þessu sinni er þar að finna nafn Retreat hótelsins sem opnaði við Bláa lónið síðastliðið sumar. Í umsögn Travel+Leisure segir að staðsetning þessa lúxus hótels, við einn þekktasta ferðamannastað Íslands, sé einstök. Fögrum orðum er farið um bygginguna sjálfa og hún sögð rísa fallega upp úr mosaklæddu hrauninu og bláa vatninu sem umlykur svæðið.

Á hótelinu eru 62 svítur og fá þær lof fyrir aðbúnað og ekki síst útsýnið sem njóta má út um stóru herbergisgluggana. Veitingastaður hússins, Moss, fær líka góða umsögn en blaðamaður Travel+Leisure segir heilsulind hótelins vera helsta aðdráttarafl The Reatreat.

Óhætt er að segja að hið nýja hótel við Bláa lónið hafi fengið töluverða athygli í heimspressunni allt frá því fyrstu gestirnir tékkuðu sig inn í fyrra. Nýverið birtist grein í tímaritinu Monocle um hótelið og í marshefti Conde Nast Traveller er Bláa lónið og Reatreat á lista yfir litríkustu áfangastaði heims.