Engar MAX þotur í háloftunum

Í kjölfar ákvörðunar forseta Bandaríkjanna að banna flug Boeing MAX þota þá óskaði flugvélaframleiðandinn eftir því að þoturnar yrðu kyrrsettar um heim allan. Aðspurður um hvort Icelandair muni sækja bætur til Boeing segir forstjóri Icelandair að farið verði yfir stöðuna þegar upplýsingar liggja fyrir.

Mynd: Boeing

Evrópsk flugmálayfirvöld tóku þá ákvörðun í fyrradag að Boeing MAX þotur yrðu ekki leyfðar í flughelgi álfunnar og í kjölfarið lagði Icelandair og fleiri evrópsk flugfélögum þotum sínum af þessari gerð. Áður höfðu Kínverjar og fleiri lönd í Asíu lagt á sams konar bann sem  gilda á meðan unnið er að rannsókn á flugslysinu í Eþíópíu á sunnudag þar sem Beoing MAX 8 þota hrapaði til jarðar. Um borð voru 157 farþegar auk áhafnar og komst enginn lífs af. Aðdragandi hraps flugvélarinnar þykir líkjast mjög hrapi Boeing MAX 8 þotu Lion Air í október síðastliðnum og þar með hafa yfirvöld og flugvél víða um heim bannað notkun flugvélanna tímabundið.

Það var hins vegar fyrst í gær sem bann var sett á  heimalandi Boeing, Bandaríkjunum. Donald Trump, forseti, tók þá fram yfir hendur þarlendra stofnanna og fyrirskipaði að flugvélar af gerðunum MAX 8 og MAX 9 yrðu teknar úr notkun. Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum gátu því ekki annað en virt ákvörðun forsetans og stjórnendur Boeing fylgdu í kjölfarið og óskuðu sömuleiðis eftir kyrrsetningu á meðan unnið er að rannsókn flugslysins í Eþíópíu á sunnudag.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér á þriðjudag segir að kyrrsetning á MAX þotum félagsins hafi til skamms tíma óveruleg áhrif á rekstur þess þar sem um sé að ræða þrjár flugvélar af þeim 33 farþegavélum sem eru í flota félagsins. Tvær af þessum þremur vélum sem Icelandair kyrrsetti eru í eigu félagsins en þá þriðju er félagið með á leigu. Í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli eru svo þrjár MAX þotur til viðbótar sem verið er að standsetja. Þar af er ein MAX 9 sem kom til landsins fyrir þremur vikum síðan og gert var ráð fyrir að yrði notuð í áætlunarflug Icelandair síðar í þessum mánuði. Sumaráætlun Icelandair gerir byggir á því að félagið verði með níu Boeing MAX þotur af gerðunum 8 og 9 en sú síðarnefnda er aðeins lengri en hin og tekur því fleiri farþega.

Þó flugáætlun Icelandair hafi ekki riðlast hingað til vegna kyrrsetningarinnar þá fór stór hluti af dagskrá flugfélagsins Norwegian úr skorðum í gær. Stjórnendur Norwegian gáfu þá út að þeir muni fara fram á skaðabætur frá Boeing vegna stöðunnar. Aðspurður um hvort Icelandair muni jafnframt fara fram á bætur þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í svari til Túrista, að farið verði yfir málin með Boeing þegar allar upplýsingar liggja fyrir.