Ferðamannastraumurinn í febrúar meiri en búist var við

Það voru fleiri túristar á landinu í síðasta mánuði en spá Isavia gerði ráð fyrir.

Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Að jafnaði fækkaði erlendum ferðamönnunum hér á landi um 396 á degi hverjum í febrúar. Í þessum stysta mánuði ársins innrituðu 149 þúsund útlendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli eða 11 þúsund færri en á sama tíma í fyrra. Ferðamannaspá Isavia gerði hins vegar ráð fyrir 27 þúsund færri túristum. Á móti kemur að samdrátturinn í janúar var mun meiri en Isavia hafði reiknað með.

Í brottförum talið þá drógst flugumferð um Keflavíkurflugvöll saman um tíund í febrúar en ferðafólki fækkaði því hlutfallslega minna eða um sjö af hundraði. Fjöldi íslenskra farþega stóð í stað og það má því gera ráð fyrir að hlutfall tengifarþega hafi lækkað þónokkuð í febrúar síðastliðnum en Isavia hefur ekki birt farþegatölur sínar fyrir síðasta mánuð.