Ferðunum frá Keflavíkuflugvelli fækkaði um tíund

Umtalsverður samdráttur varð í áætlunarflugi til og frá landinu í nýliðnum mánuði.

Icelandair og WOW stóðu undir nærri 7 af hverjum 10 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í febrúar. Mynd: Isavia

Þotur WOW air tóku að jafnaði nítján sinnum á loft frá Keflavíkurflugvelli á degi hverjum í febrúar í fyrra. Í nýliðnum febrúar voru brottfarir félagsins um fjórtán á dag og nemur samdrátturinn milli ára rétt um fjórðungi. Í sætum talið hefur hann verið ennþá meiri því nú eru ekki lengur breiðþotur í flugflota WOW air.

Þessi mikla breyting hjá WOW air er megin skýringin á því að samdrátturinn í alþjóðaflugi, í brottförum talið, var rétt um tíu prósent í síðasta mánuði samkvæmt talningu Túrista. Önnur flugfélög bættu nefnilega litlu við og sum drógu úr ferðum þannig að ennþá hafa keppinautar WOW á Keflavíkurflugvelli ekki nýtt sér það gat á markaðnum sem flugfélagið skilur eftir sig. Í febrúar fækkaði áfangastöðunum sem flogið var til úr sextíu og tveimur niður í fimmtíu og sex. Í talningu Túrista er aðeins horft til áætlunarflugs og leiguflug fyrir ferðaskrifstofur ekki talið með. Þess má þó geta að í febrúar flugu tvær breskar ferðaskrifstofur með ferðamenn hingað til lands og voru ferðirnar 30 talsins eða einni fleiri en í febrúar í fyrra.