Fjórði hver skiptifarþegi dvelur á Íslandi

Vægi erlendra ferðamanna í vélum Icelandair er hærra en tölurnar gefa til kynna.

Um helmingur þeirra útlendinga sem ferðast með Icelandair eru taldir sem ferðamenn á Íslandi. Mynd: Guus Baggermans / Unsplash

Í ársuppgjörum Icelandair er ávallt að finna upplýsingar skiptingu farþega eftir því hvort þeir komi frá Íslandi, eru ferðamenn á leið hingað til lands eða einfaldlega skiptifarþegar að fljúga yfir Norður-Atlantshafið með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Vægi síðastnefnda hópsins hefur aukist hratt síðustu ár því fyrir áratug síðan var þriðji hver farþegi tengifarþegi en í fyrra var hlutfallið 51 prósent.

Á þetta aukna vægi tengifarþega hafa stjórnendur Icelandair reglulega bent á til að sýna fram á hversu stór hluti af tekjum félagsins er í raun ótengdur íslenska markaðnum.

Markaðsstarf Icelandair út í heimi gengur hins vegar oft út á svokallaða „Stopover“ þjónustu en hún gerir fólki í Norður-Ameríku og Evrópu kleift að stoppa á Íslandi í allt að eina viku á leið sinni yfir hafið. Farþegarnir sem nýta sér þessa þjónustu er taldir sem tengifarþegar í ársskýrslum Icelandair. Jafnvel þó þeir hafi í dvalið á Íslandi á milli flugferða og eru því meðtaldir í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli.

Vægi þessarar Stopover-farþega hefur hins vegar ekki verið tilgreint sérstaklega í uppgjörum Icelandair Group. Í nýrri ársskýrslu fyrirtækisins, sem birt var á föstudag, er hins vegar tekið fram að 25 prósent allra tengifarþega félagsins í fyrra hafi bókað Stopover ferð.

Það þýðir að um sjöundi hver farþegi Icelandair er með þess háttar farmiða og því má segja að með einum eða öðrum hætti sé rétt um helmingur farþega Icelandair teljist til erlendra ferðamanna hér á landi. Vægi hefðbundinna „via“ farþega, eins og tengifarþegar eru kallaðir í bókum Icelandair, er því lægra en tölurnar hafa sagt til um.