Forstjóri Ryanair: Yfirtaka Icelandair á WOW air var heppilegust

Michael O´Leary, hinn yfirlýsingaglaði forstjóri stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu telur dæmin sanna spádómsgáfu sína. Hann viðurkennir þó að hann fylgist ekki náið með íslenskum fluggeira þó hann hafi nýverið sett WOW á lista flugfélaga í vanda.

Micheal O´Leary, forstjóri Ryanair. Myndir: Ryanair

„Við teljum að þau lágu fargjöld sem nú eru í boði muni hrista af okkur keppinauta sem eru í taprekstri. WOW, Flybe og Germania eru til dæmis öll til sölu.” Þetta sagði Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, í viðtali við BBC um miðjan janúar en hann hefur í gegnum tíðina verið óhræddur við spá opinberlega falli annarra flugfélaga.

Á fundi með blaðamönnum í Brussel í gær spurði Túristi írski forstjórann nánar út í þessi orð sín um WOW og stöðu viðræðna félagsins við Indigo Partners. O´Leary byrjaði á að svara því til að aðeins viku eftir að hann lét þessi fyrrnefndu orð falla þá hafi Germania farið á hausinn.

„Þar með er ekki sagt að hin fari sömu leið. Einhver verða tekin eins og útlit er fyrir með WOW air og Indigo Partners og ég óska þeim alls hins besta. Ég hefði þó talið það betri niðurstöðu ef Icelandair hefði keypt WOW air en ég veit ekki afhverju það gerðist ekki,” segir O´Leary. Írski flugforstjórinn viðurkennir þó að hann þekki lítið til íslensks fluggeira og að hann fylgist ekki náið með stöðu mála hér á landi.

Skýringin á því er líklegast sú að Ísland er ekki hluti að leiðakerfi Ryanair en útsendarar þess könnuðu þó aðstæður hér á landi fyrir nokkrum árum síðan. Kostnaðurinn á Keflavíkurflugvelli og erfitt aðflug á Akureyrarflugvelli stóðu hins vegar í Ryanair líkt og Túristi greindi frá á sínum tíma. Um svipað leyti hóf easyJet, helsti keppinautur Ryanair, Íslandsflug hingað frá London og síðustu ár hefur breska lággjaldaflugfélagið verið umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli.